Landspítali er á hættustigi.
Staðan kl. 12: Tíu sjúklingar eru inniliggjandi á Landspítala með COVID-19, átta á legudeildum og tveir á gjörgæslu. Síðastliðinn sólarhring útskrifaðist einn og þrír lögðust inn (einn greindist óvænt á deild). 965 eru í eftirliti á COVID göngudeild þar af 112 börn. Þrír er á rauðu en 15 einstaklingar flokkast gulir. 21 starfsmaður er í einangrun, 35 í sóttkví A og í vinnusóttkví eru 92 starfsmenn.
Sérstakar tilkynningar
1. Undanfarna tvo daga hafa greinst tvö smit hjá starfsmönnum og eitt hjá inniliggjandi sjúklingi á blóð- og krabbameinslækningadeild 11EG. Að venju hefur farið fram ítarleg rakning og skimun og fólki verið skipað í sóttkví A eða vinnusóttkví eftir atvikum. Viðkomandi sjúklingur greindist við skimun í gær. Hann var fluttur á smitsjúkdómadeild í einangrun og tveir samsjúklingar eru í sóttkví. Ekki er hægt að fullyrða neitt um tengingar þessara smita að svo stöddu en mögulega er um þrjá aðskilda atburði að ræða.
2. Nokkuð er um að starfsfólk sé að fá skilaboð frá rakningarappinu að það eigi að vera í smitgát af því það hafi verið í nálægð við smitaðan einstakling og uppfylli bæði nálægðar- og tímamörk. Sá sem fær skilaboðin hefur ekki verið á lista hins smitaða yfir þá sem hann hefur hitt (veitingahús, verslun o.s.frv.). Raunveruleg útsetning er því óþekkt og ekki vitað hver hinn smitaði er vegna persónuverndar.
Farsóttanefnd mælist til að starfsmenn sem fá slík skilaboð skuli tilkynna það til yfirmanns sem sækir um sóttkví C. Hún gildir í 7 daga frá útsetningu og lýkur með sýnatöku sem viðkomandi fær boð um frá Almannavörnum og er framkvæmd á Suðurlandsbraut 34.