Landspítali er á hættustigi, sem er annað af þremur viðbragðsstigum í viðbragðsáætlun Landspítala. Ástæðan er faraldur COVID-19. Skilgreining hættustigs samkvæmt viðbragðsáætlun Landspítala er eftirfarandi: Orðinn atburður sem kallar á að starfað sé eftir viðbragðsáætlunum. Fjöldi þolenda af þeirri stærðargráðu að aukið álag skapast á ýmsar deildir (gulur litur í gátlistum). Viðbragðsáætlun Landspítala vegna farsótta hefur því verið virkjuð og funda viðbragðsstjórn og farsóttanefnd daglega.
Staðan kl. 12: Níu sjúklingar eru inniliggjandi á Landspítala með COVID-19, sjö á legudeildum og tveir á gjörgæslu. Hvorki voru innlagnir né útskriftir síðastliðinn sólarhring en einangrun var aflétt af einum sjúklingi. 1.066 eru í eftirliti á COVID göngudeild, þar af 132 börn. Þrír er á rauðu en 18 einstaklingar flokkast gulir. 18 starfsmenn eru í einangrun, 20 í sóttkví A og í vinnusóttkví eru 120 starfsmenn. Þess er vænst að stór hópur starfsmanna losni úr vinnusóttkví eftir daginn í dag.
Sérstakar tilkynningar
1. Í gær var greint frá því að sjúklingur og starfsmaður á blóð- og krabbameinslækningadeild hefðu greinst með COVID-19 og gripið hefði verið til ítrustu ráðstafana í kjölfar þess. Í ljósi þess að niðurstöður prófanna voru ekki afgerandi var ákveðið að endurtaka þau eins og verklag kveður á um og nú liggur fyrir að bæði prófin voru neikvæð. Báðir aðilar eru því lausir úr einangrun, sjúklingar eru lausir úr sóttkví og starfsmenn úr vinnusóttkví C.
2. Minnt er á að skv. verklagsreglum á að skima vikulega alla inniliggjandi sjúklinga sem nota svefnvélar. Þeir geta notað vélarnar áfram enda er um skimun einkennalausra að ræða.
Sjá nánar hér um skimun inniliggjandi sjúklinga. Ef sjúklingur fær einkenni sem benda til COVID og tekið er sýni þess vegna þá má hann ekki nota vélina þar til neikvætt svar hefur borist.
3. Mælt er með því að taka skimsýni hjá sjúklingum sem þurfa að fara á ytri öndunarvél (BiPAP) og gæta fyllstu varúðar í umgengni þar til niðurstaða hefur borist. Ef klínískur grunur er um COVID þarf meðferðin að eiga sér stað í þrýstingsstýrðu herbergi þar til niðurstöður liggja fyrir.
Nánari leiðbeiningar um meðferð þessara sjúklinga með COVID eða sem eru grunaðir um COVID hér.
4. Vegna COVID-19 breytist þjónusta í matsölum Landspítala frá og með þriðjudeginum 3. ágúst:
- Sjálfsskömmtun verður ekki í boði frá og með þriðjudegi 3. ágúst en starfsfólk getur komið og matast í matsal eða sótt mat eins og verið hefur.
- Matarpantanir verða í gegnum Heilsugátt.
- Pantanir þurfa að berast fyrir hádegi, sólarhring fyrir afhendingu. Ekki er tekið tillit til pantana sem berast samdægurs.
- Hægt verður að verða við séróskum ef pantað er í gegnum Heilsugátt. Ekki er hægt að verða við séróskum í afgreiðslu í matsölum.
- Afhendingartímar verða 11:00, 11:30 og 12:00
Frávik þriðjudaginn 3. ágúst: Hægt verður að panta samdægurs þennan dag en áríðandi að pantanir berist fyrir kl. 10:00