Kæra samstarfsfólk!
Mig langar til að byrja á að þakka ykkur öllum sem nú standið í framlínunni og leggið á ykkur ómælda vinnu, langt umfram það sem eðlilegt er að ætlast til, svo Landspítali geti sinnt öllum þeim sem á þjónustu okkar þurfa að halda. Þið eruð mögnuð. Það gengur ýmislegt á í umræðunni, m.a. í aðdraganda kosninga og mikilvægt að vanda til upplýsingaöflunar áður en þeyst er fram á umræðuvöllinn. Því er ekki alltaf að heilsa en mig langar í dag að gera framleiðni að umtalsefni.
Mikilvæg umræða um framleiðni
Töluvert hefur verið rætt um framleiðni spítala í umræðu undanfarinnar vikur. Þetta er ekki ný umræða en hún er mikilvæg. Það kann að stuða fólk sem sinnir heilbrigðisþjónustu í framlínu að tala um líkn og lækningu með orðalagi verksmiðjunnar, að verið sé að framleiða. Það er hins vegar svo að allar heilbrigðisstofnanir og stór sjúkrahús sérstaklega eru þjónustustofnanir sem „framleiða“ þjónustu í þeim tilgangi að draga úr afleiðingum veikinda og slysa. Þar að auki gegna háskólasjúkrahús mikilvægu hlutverki við að mennta næstu kynslóðir fagfólks og við að efla þekkingu með vísindastarfi.
Framleiðslutengd fjármögnun starfsemi (DRG)
Landspítali hefur frá árinu 2004 notað svokallað DRG-kerfi til að halda utan um starfsemi sína og „framleiðslu“. DRG stendur fyrir „diagnostic-related groups“ og er í raun byggt á því að hægt er að áætla kostnað fyrir skyldar sjúkdómsgreiningar. Þessar aðferðir eru orðnar mjög þróaðar innan Landspítala og eru ákveðinn lykill að yfirsýn stjórnenda á starfsemi spítalans. Undanfarinn áratug hefur spítalinn óskað eftir því að DRG-kerfið verði notað til að fjármagna stóran hluta rekstrar spítalans, svokölluð framleiðslutengd fjármögnun. Það var þó ekki fyrr en árið 2016 sem okkur tókst að gera samning um framleiðslutengda fjármögnun spítalans. Prufukeyrslur og skuggakeyrslur hafa farið fram undanfarin ár en löngu er tímabært að stíga skrefið og fjármagna spítalann með DRG-fjármögnunarmódeli. Vonandi næst það á árinu 2022 en reynsla annarra þjóða er sú að þessi fjármögnunaraðferð sé mun hentugri en þau föstu fjárlög sem hingað til hafa fjármagnað þjónustu sem í eðli sínu er síkvik. Framleiðslutengt DRG-fjármögnunarkerfi mun þannig skapa umhverfi sem er nær því að aukið fjármagn fylgi auknum verkum, þótt auðvitað sé meginlínan alltaf í höndum stjórnvalda.
Góð framleiðni á Landspítala í alþjóðlegum samanburði
Í umræðu um framleiðni hefur McKinsey skýrsluna frá 2020 borið á góma en sjálfur sat ég í stýrihóp verkefnisins og tók þátt í vinnunni. Annar hluti skýrslu McKinsey sneri að því hvernig koma megi upp DRG-fjármögnunarkerfi strax á næsta ári. Hinn hlutinn fjallaði um nýtingu tækifæra í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Þar koma fram nokkrir mikilvægir hlutir sem lúta að framleiðni sem mér sýnist í ljósi umræðunnar að vert sé að draga fram.
Framleiðni per stöðugildi læknis á sjúkrahúsum á Íslandi (Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri) er á pari við viðmiðunarsjúkrahús á Skáni í Svíþjóð, þrátt fyrir að hún hafi farið minnkandi frá 2015 á öllum stöðunum þrem. Skýring á minnkandi framleiðni hérlendis er að finna í nokkrum þáttum en sá stærsti er tímamótakjarasamningur. Læknar fá nú mikilvæga hvíld í kjölfar erfiðra vakta en af því leiða aukin frí sem manna þarf með fleiri stöðugildum til að veita sömu þjónustu. Það er hægt að kalla það minni framleiðni, eða bara betra starfsumhverfi! Þessi áhrif sjást í „framleiðni“ lækna sem taka vaktir á þyngstu póstum landsins en þessir samningar gilda ekki utan spítala. Framleiðni hjúkrunarfræðinga mæld í hjúkrunarstundum á sjúkling er svipuð á Landspítala og á Skáni.
Þrátt fyrir þetta er staðreyndin sú að Landspítali stendur framar viðmiðunarsjúkrahúsum erlendis í framleiðni á skurðstofum og nýtingu þeirra. Þar munar raunar gríðarmiklu eins og sést skýrt á mynd 5 úr skýrslu McKinsey.
Framþróun rafrænna ferla
Önnur leið til að bæta framleiðni er að tryggja að ferlar, ekki síst rafrænir ferlar, séu sem skilvirkastir. Þar hefur töluverð vinna verið í gangi undanfarinn áratug, ekki síst í þróun rafrænna kerfa fyrir heilsufarsskrár. Þótt við séum ekki fremst í flokki á Norðurlöndum fer því fjarri í samanburði á milli landa að Ísland og sjúkrahúsin séu þar eftirbátar annarra þjóða, eins og sést vel á mynd 3 úr skýrslu McKinsey.
45% fjölgun skurðaðgerða á áratug
Mikilvægt er að leggja áherslu á það að góð leið til að bæta framleiðni er að vinna í ferlum og sérhæfa sig. Þessu höfum við náð á Landspítala sem hefur t.d. náð að fjölga skurðaðgerðum jafnt og þétt eða um 45% á síðustu 10 árum. Landspítali er þjóðarsjúkrahús Íslands og sinnir bæði sérhæfðu sjúkrahúshlutverki, héraðssjúkrahúshlutverki, hlutverki í viðbragði almannavarna (m.a. bráðamóttakan) auk þess að sinna lykilhlutverki í menntun heilbrigðisstétta og heilbrigðisrannsóknum. Ljóst er að þetta margþætta, mikilvæga hlutverk mun alltaf að einhverju leyti koma niður á framleiðni, sérstaklega þar sem spítalinn sinnir vissum sérhæfðum verkefnum, sem smæð þjóðarinnar leyfir vart. Þetta fjölþætta hlutverk gerir samanburð við sjúkrahús erlendis, sem t.d. geta hætt tiltekinni starfsemi til að efla framleiðni í annarri, heldur tæpan. Hægt er að stíga ákveðin skref til auka afl spítalans til að sinna kjarnastarfsemi sinni, sem hann er sérhæfður til, með því t.d. að færa annað verkefni sem hvorki tilheyra háskólasjúkrahúss- né héraðssjúkrahússhlutverkinu. Þar má sérstaklega líta til hjúkrunarþjónustu, ekki síst í öldrun, en einnig ákveðinnar endurhæfingarþjónustu, almenna líknarþjónustu og fleira mætti nefna. Til að ljúka þessari umræðu er rétt að draga fram þessa mynd úr skýrslu McKinsey á síðasta ári, sem sýnir að fjárframlög til heilbrigðisþjónustu hafa aukist á Íslandi undanfarin ár, sem er vel. Því miður er einnig augljóst á grafinu, með samanburði við hin norrænu ríkin, að enn er mikið verk að vinna til að fjármögnun sé samanburðarhæf.
Baráttukveðjur
Páll Matthíasson