Frá framkvæmdastjórn Landspítala:
Undanfarið hefur formaður félags sjúkrahúslækna komið fram í fjölmiðlum og viðrað áhyggjur sínar af stöðu mála á Landspítala og í heilbrigðiskerfinu. Rétt er að gera efnislegar athugasemdir við nokkrar fullyrðingar sem hafa komið fram í málflutningi formannsins.
1. Varðandi fjármögnun Landspítala er hið rétta að forstjóri spítalans og aðrir stjórnendur hafa ítrekað vakið máls á vanfjármögnun spítalans, meðal annars í samtölum við ráðamenn á nýlegum fundum. Stjórnendur og starfsmenn spítalans hafa barist fyrir auknum fjárframlögum í samtölum við stjórnvöld og með formlegum hætti á vettvangi fjárveitingavaldsins auk þess að eiga um það fjölmörg viðtöl við fjölmiðla. Fjölgun gjörgæslurýma er á meðal þess sem aukin fjárframlög ættu að renna til. Sérstaklega hefur verið bent á þá staðreynd að gjörgæslurými eru með þeim fæstu sem gerast í löndum OECD enda hafa raddir starfsmanna verið skýrar þar um.
2. Í vetur var auglýst eftir hjúkrunarfræðingum með gjörgæslusérhæfingu og var öllum þeim sem hæfni höfðu og starfsleyfi boðið starf, utan eins sem hélt áfram störfum á kjarnanum og annars sem starfar áfram á sviðinu. Á báðum þeim einingum er verulegur skortur á hjúkrunarfræðingum einnig. Nú hefur að gefnu tilefni aftur verið auglýst eftir hjúkrunarfræðingum á gjörgæsludeildir spítalans
Starfsemi gjörgæsludeilda er gríðarlega mannaflafrek, enda flókin starfsemi sem krefst mikillar sérhæfingar. Gera þarf ráð fyrir 90-100 starfsmönnum á sólarhring til að unnt sé að reka gjörgæsludeildir Landspítala, ekki 60 eins og haldið hefur verið fram. Gjörgæslurýmum var tímabundið fækkað í sumar vegna sumarleyfa starfsfólks, en rýmum fjölgað á þeim tíma eftir þörfum. Þannig var rýmum t.d. fjölgað um 70% á tímabili. Nú eru 14 gjörgæslurými mönnuð og unnt að fjölga þeim eftir þörfum, þótt mönnun sé takmarkandi þáttur.
3. Ekki er rétt að starfsfólki sé ekki boðin 25% lenging á fríum séu þau tekin utan sumarorlofstíma. Um er að ræða breytingu á kjarasamningum þar sem kveðið er á um að geti vinnuveitandi ekki veitt sumarfrí á sumarorlofstíma þá fær starfsmaður 25% lengingu á sitt sumarfrí. Þessu ákvæði hefur meðal annars verið beitt í sumar. Samið var um þetta í miðlægum kjarasamningum sem spítalinn hefur ekki aðkomu að en verið var að breyta orlofskafla kjarasamninga og komu aðrir þættir inn í kaflann á móti þessu. Til dæmis var samið um aukinn orlofsrétt fyrir yngra starfsfólk, þannig að það fengi strax 30 daga orlof í stað 24-27 daga orlofs sem áður var. Undirritaður kjarasamningur er borinn undir atkvæði félagsmanna stéttarfélaga og voru kjarasamningar samþykktir af félagsmönnum áður en þeir tóku gildi.
4. Sumarumbun var sérstakt átaksverkefni á árunum 2016-2019 þar sem markmiðið var að hvetja vaktavinnufólk til þess að vinna ákveðnar álagsvaktir, einkum helgarvaktir og rauða daga, yfir sumarmánuðina. Með tilkomu nýrra miðlægra kjarasamninga þar sem samið var um betri vinnutíma og styttingu vinnuvikunnar er innbyggð hvatning til að taka fjölbreyttari vaktir en áður, svo sem helgarvaktir og rauða daga. Sú hvatning kom þá í stað sumarumbunar.
5. Áréttað skal að um launahækkanir og önnur starfskjör er samið í miðlægum kjarasamningum milli stéttarfélaga og fjármálaráðuneytis, án aðkomu Landspítala. Upp hefur komið ágreiningur um ákvæði kjarasamnings lækna sem snýr að því hvort greiða beri læknum viðbótargreiðslur fyrir aukavaktir. Samningsaðilar kjarasamnings eru tveir; Læknafélag Íslands og fjármálaráðuneytið. Því leitaði spítalinn til ráðuneytisins um túlkun og staðfesti ráðuneytið (kjara- og mannauðssýsla ríkisins) túlkun spítalans. Læknafélag Íslands vísaði deilunni til félagsdóms, sem er réttur aðili til að skera úr um ágreiningsatriði á milli samningsaðila.
6. Formaður félags sjúkrahúslækna hefur haldið því fram að vöxtur hafi verið í framkvæmdastjórn og öðrum stjórnendahópum spítalans. Hið rétta er að fækkað hefur verið um 40% í framkvæmdastjórn og öðrum stjórnendum hefur sömuleiðis fækkað.
Nokkur fjölgun hefur orðið á starfsmönnum á Landspítala en fjölgun stjórnenda hefur ekki haldist í hendur við þá þróun og hefur þeim hlutfallslega fækkað. Stjórnunarspönn stjórnenda á spítalanum hefur verið og er áfram mjög stór og ein sú mesta sem þekkist á Íslandi og að líkindum þó víðar væri leitað. Þannig hefur hver stjórnandi á Landspítala mun fleiri starfsmenn á sínum vegum en almennt þekkist. Til viðbótar þessu skal áréttað að klínísk stoðþjónusta á Landspítala hefur verið efld með markvissum hætti undanfarin ár, gagngert til að minnka skrifstofuvinnu hjá klínísku starfsfólki, meðal annars læknum og hjúkrunarfræðingum, og gera þeim þannig betur kleift að sinna sínu kjarnahlutverki.
Sjá mynd hér að ofan.
Markmið okkar allra er upplýst og uppbyggileg umræða um spítalann og framtíð hans. Farsælla er þegar slík umræða er byggð á staðreyndum og er áhugasamt starfsfólk hvatt til að afla sér gagna, sem m.a. er unnt að fá í starfsemisupplýsingum spítalans og frá hagdeild hans.
Hér er hægt að skoða myndina fyrir ofan í fullri stærð og sækja hana