Landspítali er á hættustigi, sem er annað af þremur viðbragðsstigum Landspítala. Ástæðan er faraldur COVID-19. Skilgreining hættustigs samkvæmt viðbragðsáætlun Landspítala er eftirfarandi:
Orðinn atburður sem kallar á að starfað sé eftir viðbragðsáætlunum. Fjöldi þolenda af þeirri stærðargráðu að aukið álag skapast á ýmsar deildir (gulur litur í gátlistum).
Viðbragðsáætlun Landspítala vegna farsótta hefur því verið virkjuð og funda viðbragðsstjórn og farsóttanefnd eftir þörfum.
Staðan kl. 14
10 sjúklingar liggja á Landspítala vegna COVID, allir á bráðalegudeildum spítalans og eru 3 þeirra óbólusettir. Á gjörgæslu er enginn sjúklingur. Engir sjúklingar í innlögn eru hálfbólusettir. Meðalaldur innlagðra er 59 ár.
Alls hafa 96 sjúklingar lagst inn á Landspítala með COVID í fjórðu bylgju faraldursins. Um þriðjungur er óbólusettur. Sextán hafa þurft gjörgæslustuðning.
Þrír sjúklingar með COVID-19 hafa látist í fjórðu bylgju faraldursins á Landspítala .
Nú eru 773 sjúklingar, þar af 248 börn, í COVID göngudeild spítalans. Einn er metinn rauður og 14 einstaklingar gulur og þurfa nánara eftirlit.
10 starfsmenn eru í einangrun vegna COVID-19, 8 í sóttkví A og 58 í sóttkví C.
Landspítali mun næst uppfæra þessar tölur mánudaginn 6. september.
Sérstakar tilkynningar
1. Deild A6 opnuð aftur
Deild A6, sem hefur verið í sóttkví í viku í kjölfar óvænts smits COVID-19,er nú aftur opin fyrir innlagnir sjúklinga. Ekki greindust fleiri einstaklingar en þeir þrír sem greindust í fyrstu og er starfsfólki, sjúklingum og aðstandendum þökkuð árverkni.
2. Landspítali hættir notkun hraðgreiningarprófa
Farsóttanefnd hafði um það forgöngu í sumar, þegar fjórða bylgja COVID faraldurs skall á, að innleiða notkun hraðgreiningarprófa með þröngum skilmerkjum. Prófin hafa síðan verið framkvæmd á tilgreindum stöðum hjá starfsmönnum með væg einkenni, sem eiga að mæta til vinnu og treysta sér til þess. Lærdómurinn af notkun hraðgreiningarprófa í viðkvæmri starfsemi eins og sjúkrahússtarfsemi hefur verið á þann veg að þau séu síðri kostur en PCR próf. Aðgengi að PCR prófum er mjög gott fyrir starfsmenn spítalans alla daga ársins og ekki þykir ástæða til að nota jafnframt próf sem eru síðri, hafa skilað bæði falskt jákvæðum og falskt neikvæðum niðurstöðum og eru auk þess vandasöm í túlkun.
Farsóttanefnd ber að leita allra leiða til að vernda starfsemina fyrir því að þangað inn berist smit og niðurstaða nefndarinnar eftir u.þ.b. 6 vikna reynslutíma er því að hætta að nota þessi próf að svo stöddu.
Starfsmenn geta nú sjálfir bókað PCR sýnatöku í Heilsuveru og fengið hana framkvæmda á Covid göngudeild í Birkiborg auk þess sem fjölmargar aðrar starfsstöðvar eru í stakk búnar til að taka sýni fyrir PCR próf úr starfsmönnum sínum.
3. Skimun án einangrunar á öllum sjúklingum sem þurfa innlögn
Farsóttanefnd hefur til stöðugrar skoðunar hvort og þá hvernig er hægt að breyta nálgun til að fækka þeim smitum sem berast nánast daglega inn í starfsemina með tilheyrandi raski og óþægindum. Verið er að skoða rakningagögnin og meta hvort eitthvað í þeim gefi tilefni til breytinga í aðferðafræði við rakningu og heldur sú vinna áfram. Nefndin leggur til á þessum tímapunkti að sem fyrst verði innleitt það verklag að skima alla sjúklinga á Landspítala sem leggjast brátt inn á degi hverjum ásamt því að ekki verði heimilt að nota svefnvélar nema neikvætt PCR sýni liggi fyrir. Vert er þó að benda á að þrátt fyrir tíðar uppákomur, hafa smit milli sjúklinga/starfsmanna verið mjög fátíð og styður það við núverandi verklag og nálgun.
4. Bólusetningar (viðbótarskammtur/örvunarskammtur)
Þeir sem hafa fengið einn skammt af Janssen bóluefninu eru eindregið hvattir til að þiggja örvunarskammt með Pfizer eða Moderna. Hann er hægt að fá á Suðurlandsbraut 34 milli kl. 10 og 15 alla daga án bókunar. Þá býður heilsugæslan þeim sem eru 60+ upp á viðbótarskammt á sama stað og sama tíma að því gefnu að 26 vikur séu liðnar frá seinni bólusetningaskammti. Um fyrirkomulag viðbótarskammta fyrir aðra starfsmenn verður tilkynnt síðar.
5. Sóttkví/smitgát á heimili starfsmanns
Ef heimilismanni á heimili bólusetts starfsmanns Landspítala er skipað í sóttkví vegna útsetningar í samfélaginu getur yfirmaður sótt um vinnusóttkví C fyrir starfsmanninn. Hún gildir þar til heimilismaður hefur skilað neikvæðu sýni og er laus úr sóttkví. Ef heimilismaður í sóttkví fær einkenni þá þarf hann að fara strax í sýnatöku og starfsmaðurinn að vera heima í úrvinnslusóttkví. Ef heimilismanni á heimili bólusetts starfsmanns Landspítala er skipað í smitgát vegna útsetningar í nærumhverfi þá er ekki þörf á neinum aðgerðum umfram persónulegar sóttvarnir, aðgát og sýnatöku við minnstu einkenni.
Starfsmenn eru hvattir til að vakta líðan sína daglega og fara í sýnatöku ef einkenna verður vart. Fari heimilismaður starfsmanns í sýnatöku þá skal starfsmaður vera heima í úrvinnslusóttkví þar til svar liggur fyrir.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.