Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur vakið athygli á því að Efnahags- og framfarastofnunin OECD hafi í frétt á vef sínum farið rangt með hlutfall hjúkrunarfræðinga á hverja 1.000 íbúa á Íslandi. Stofnunin telur að hlutfallið árið 2020 hafi verið 15,7 á hverja 1.000 íbúa. Þetta sé rangt vegna rangra forsendna í útreikningi. Rétta talan sé 9,5 á hverja 1.000 íbúa.
Félagið segir að stofnunin gefi sér að 5.700 hjúkrunarfræðingar hafi verið við störf árið 2020 sem sé ekki rétt, hið rétta sé 3.400 hjúkrunarfræðingar. Þar muni 2.300 hjúkrunarfræðingum. Efnahags- og framfarastofnunin telji sjúkraliða til hjúkrunarfræðinga og jafnvel einnig ljósmæður. Þrátt fyrir þetta styðjist OECD við þá skilgreiningu að til hjúkrunarfræðinga teljist allir starfandi hjúkrunarfræðingar sem veita sjúklingum þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Misræmið komi fram vegna þess að útreikningunum sjálfum sé ekki farið eftir þeirri skilgreiningu.