Það gustar um Landspítala eins og oft áður. Þetta gerist nú raunar sérstaklega í aðdraganda kosninga og það er auðvitað ekki undarlegt í ljósi þess hversu stórt hlutverk þjóðarsjúkrahúsið spilar í samfélagi okkar. Stundum hleypur fólki samt kapp í kinn og ályktar of vítt út frá takmörkuðum og jafnvel röngum upplýsingum. Það er mikilvægt að fólk hafi aðgang að réttum upplýsingum um rekstur Landspítala og því höfum við nú sett í loftið sérstaka síðu á vefsvæði spítalans sem svarar algengum spurningum. Við gerum ráð fyrir að bæta í upplýsingarnar eftir því sem tilefni gefast, sem sjálfsagt verða mörg. Meðal þess sem tæpt er á þar er staða stafrænnar þróunar á spítalanum sem að ósekju sætti einkennilegum fullyrðingum um að væri í skötulíki, en því fer alls fjarri. Þá hafa ýmsar tröllasögur gengið um fjölda stjórnenda á spítalanum og einhverjum datt í hug að benda spítalanum á möguleika straumlínustjórnunar, án þess að kynna sér málin, en fáir hafa náð jafnlangt á umbótavegferð með þeirri aðferðafræði og einmitt Landspítali.
Heilbrigðisþjónusta er viðkvæm starfsemi og það er mikilvægt að tala um hana með skýrum hætti en líka af nærgætni við þá sem hennar njóta. Enda þótt ýmislegt megi sannarlega efla og lagfæra í íslensku heilbrigðiskerfi þá má ekki gleyma því að þar er fjölmargt til algerrar fyrirmyndar, þótt annað mætti ætla í öllum hávaðanum. Um daginn heyrði ég t.d. rætt í fjölmiðlum að staðan væri svo hræðileg á Íslandi að sennilega væri best að fara til Danmerkur til að fá hjartaáfall! Augljóslega ferðast maður ekki sérstaklega eitthvert til að fá lækningu við óvæntum alvarlegum sjúkdómum en það má líka benda á að staðan á Íslandi er sú hvað varðar árangur í hjartalækningum og lifun eftir hjartaáfall að þar standa fáar þjóðir okkur framar! Raunar er árangurinn stórkostlegur og ber okkar frábæra fagfólki glæsilegt vitni.
Ýmsar áskoranir eru samt sem áður í rekstri spítalans. Þær eru einkum fjárhagslegar. COVID-19 farsóttin hefur sýnt fram á það sem við stjórnendur spítalans höfum lengi sagt, að fjármögnun spítalans skapar ekki borð fyrir báru til að bregðast við stórfelldum áföllum. Það horfir vonandi til bóta. Einnig er alveg ljóst að þær áskoranir sem fylgja öldrun þjóðarinnar eru slíkar í heilbrigðismálum að hugsa þarf heilbrigðis- og félagsþjónustuna upp á nýtt og fjármagna hana með fullnægjandi hætti. Til þess þarf þjóðarsátt og viðeigandi aðgerðir. Landspítali er tilbúinn í þá vegferð fyrir sitt leyti því ekki skortir hugvitið, kraftinn og eljuna í starfsfólkið.
Góða helgi!
Páll Matthíasson