Katrín María Þormar og Sigrún Ásgeirsdóttir hafa verið ráðnar yfirlæknar svæfingadeilda á Landspítala Hringbraut og Landspítala Fossvogi.
Katrín María Þormar lauk læknaprófi frá HÍ 1997, fékk sérfræðileyfi í svæfinga- og gjörgæslulækningum 2005 og lauk framhaldsnámi í gjörgæslulækningum 2008. Katrín starfaði í Kaupmannahöfn að loknu sérnámi, fyrst sem sérfræðilæknir og síðar sem yfirlæknir. Hún hóf störf við Landspítala 2016. Katrín hefur mikla reynslu af stjórnunar-, kennslu- og vísindastörfum bæði hérlendis og erlendis. Hún er formaður Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands og situr í stjórn norræna svæfingalæknafélagsins, SSAI.
Katrín María er á vinstri myndinni.
Sigrún Ásgeirsdóttir lauk læknaprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 2008, fór svo í sérnám í svæfinga- og gjörgæslulækningum á Sahlgrenska Háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg, og fékk sérfræðileyfi 2017. Sigrún starfaði sem sérfræðingur á Sahlgrenska að loknu sérnámi þar til hún hóf störf á Landspítala 2020. Sigrún hefur mikla reynslu af kennslustörfum og starfaði sem einn af kennslustjórum svæfingadeildarinnar á Sahlgrenska, ásamt því að bera ábyrgð á vaktafyrirkomulagi og vinnuskipulagi deildarinnar. Eftir að Sigrún hóf störf á Landspítala hefur hún einnig starfað sem læknir við þyrlu Landhelgisgæslunnar og verið umsjónarlæknir bæði sjúkraflutninga höfuðborgarsvæðisins og þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar.
Sigrún er á hægri á myndinni.
Katrín María verður í byrjun yfirlæknir við Hringbraut og Sigrún yfirlæknir í Fossvogi en þær munu síðan í tímans rás skipta um starfsstöð.