I.
Í dag er alþjóðadagur öryggis sjúklinga. Landspítali hefur lengi unnið markvisst að uppbyggingu öryggismenningar í þjónustunni. Starfsemi Landspítala er fjölþætt og umhverfið flókið. Því flóknari ferli og stærri áskoranir sem glímt er við því meiri líkur eru á því að eitthvað fari úrskeiðis. Þess vegna snýr eitt höfuðgildi Landspítala að öryggi og því höfum við undanfarin misseri verið á öryggisvegferð þar sem við skráum óhrædd þau atvik sem verða og skoðum orsakir þeirra. Þetta er forsenda þess að unnt sé að læra af því sem aflaga fer og því sem fór næstum því aflaga. Síðan þarf að búa svo um hnútana að atvikið endurtaki sig ekki eða gerist ekki. Sir Liam Donaldson, fyrrverandi landlæknir Breta, orðaði þetta sennilega best; To err is human, to cover up is unforgivable and to fail to learn is inexcusable“ - mistök er mannleg, að hylma yfir þau er ófyrirgefanlegt og að læra ekki af þeim er óafsakanlegt. Við verðum að læra af atvikum til að bæta okkur en til þess að svo megi verða, verður menningin að stuðla að því að starfsfólk (og sjúklingar/aðstandendur) skynji starfsumhverfið þannig að það sé bæði óhætt og mikilvægt að greina greiðlega frá því sem aflaga fer. Helsta ógn við slíka menningu er „shame and blame“ menning þar sem sökudólga er leitað en ekki orsaka. Atvik sem verða vegna ásetnings eða vanrækslu eru afar sjaldgæf enda sýnir reynslan að langoftast eru aðrar skýringar og þær fjölmargar á því sem úrskeiðis fór. Það eru því mikil vonbrigði að ítarleg skýrsla starfshóps sem skilaði niðurstöðum fyrir fimm árum hafi hafi enn ekki leitt til gagngerðra úrbóta. Vonandi verður bragarbót af því hið fyrsta og dagurinn í dag er ágæt áminning um að aðgerða er þörf.
II.
Það er að mörgu leyti sérstök reynsla að vera forstöðumaður ríkisstofnunar í aðdraganda alþingiskosninga. Ekki síst þegar stofnunin er sífellt til umræðu eins og er reyndin með Landspítala. Allir, hvaðan úr flokki sem þeir koma, keppast við að mæra mikilvægi og hlutverk spítalans og vart má á milli sjá hvort hljómar hærra, yfirlýsingar um hversu mikið fé hafi verið sett í spítalann fram að þessu og yfirlýsingar um það hversu miklu eigi nú að bæta við á næsta kjörtímabili.
Til að bæta úr þeirri upplýsingaóreiðu sem skapast við þessar kringumstæður höfum við stjórnendur spítalans leitast við að setja fram upplýsingar um rekstur spítalans sem gagnast geta jafnt starfsfólki okkar, stjórnmálamönnum og fjölmiðlafólki til upplýstrar umræðu - Spurt og svarað um Landspítala. Við munum reglulega bæta við upplýsingum og nú síðast var fyrirspurn um liðskiptaaðgerðir svarað. Ég vil draga fram og minna á nokkrar staðreyndir sem máli skipta:
- Á árunum eftir hrun dróst rekstrarkostnaður Landspítala saman um 23%. U.þ.b. helmingur þessa var vegna vinnu við innri ferla (raunveruleg hagræðing), sérstaklega fjölgun dagskurðaðgerða og fækkun skurðaðgerða sem krefjast legu á spítalanum. Hinn helmingur þessarar hagræðingar var því miður fenginn með því að spara í mönnun, viðhaldi húsnæðis og tækjakaupum.
- Afleiðingar þessa voru miklar og neikvæðar fyrir rekstur spítalans. Skuld myndaðist í mönnun, viðhaldi húsnæðis, tækjum og tækni. Því má segja að ákafar sparnaðaraðgerðir hafi í raun verið víxill inn í framtíðina, sem við nú verðum að greiða niður með vöxtum og vaxtavöxtum. Það gildir um niðurskurð eins og annað - hann verður að vera sjálfbær og skynsamlegur. Svo var ekki um allar þær aðgerðir sem gripið var til í kjölfar hrunsins og hafa raunar sumar reynst okkur afar dýrkeyptar.
- Frá 2013 hafa stjórnvöld bætt fjármögnun spítalans. Þar munar mikið um svokalla aukningu vegna lýðfræðilegra breytinga upp á 1,8% á ári (á móti kemur 0,5% hagræðingarkrafa svo raun aukning er 1,3%). Einnig hefur framlag til viðhalds húsnæðis og til tækjakaupa aukist afar mikið. Uppbygging húsnæðis Landspítala, sem gengið hefur undir ýmsum nöfnum (Nýr Landspítali, Hringbrautarverkefnið) er síðan meiri háttar uppbyggingar- og umbótaverkefni, verkefni sem hefur dregist úr hófi en sem mun skipta sköpum í sjúkrahúsþjónustu á Íslandi næstu áratugina.
- Þrátt fyrir þetta þá glímir spítalinn enn við vanda fortíðar. Það vantar enn mikið upp á að fjármögnun spítalans sé í samræmi við verkefni. Þetta sést í mönnun sem er víða á spítalanum ófullnægjandi svo ógnar á stundum þjónustu spítalans, þetta sést í afar vanfjármagnaðri vísindastefnu spítalans og þetta sést í húsakosti sem víða er óviðunandi.
- Margt af þessu stendur til bóta en það sem ekki hefur verið hugað nægjanlega að er aukið rekstrarfé spítalans. Til að spítalinn geti sinnt hlutverki sínu með viðunandi hætti, bæði þjónustu við sjúklinga en einnig kennslu- og vísindahlutverki þá þarf miklu, miklu meira fjármagn. Ekki þarf annað en að líta til samanburðarsjúkrahúsa í nágrannalöndum til að sjá það.
- Að því marki eru tvær leiðir og ég tel að báðar þurfi að fara. Annars vegar verður að tryggja Landspítala aukið rekstrarfé og fé til vísinda og kennslu í samræmi við mikilvægi hlutverksins. Þar munar í það minnsta 5-10% af rekstrarfé per ár, sem þarf til að hægt sé að sækja fram í heilbrigðiskerfinu með viðunandi hætti.
- Hins vegar þá þarf að fela öðrum aðilum þá þætti þjónustunnar sem ekki þarf að sinna á héraðs- og háskólasjúkrahúsi. Þar kemur fyrst upp í hugann viðamikið hjúkrunarþjónustuhlutverk sem spítalinn gegnir nú en margt annað má nefna. Til að þetta sé unnt þá þarf skýra stefnumörkun og núverandi heilbrigðisstefna til ársins 2030 markar þar skýra sýn.
- Hvernig sem málum er snúið þá verður ekki hjá því komist að setja mjög aukið fé í heilbrigðismál, bæði á Landspítala og annars staðar í kerfið. Það er ekki markmið í sjálfu sér en það er nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að byggja upp heilbrigðiskerfi eins og þjóðin er algerlega skýr um að hún vill.
III.
Í vikunni fór ég í heimsókn inn á Klepp og kynnti mér þar meðferðarlínu lyndisraskana í geðþjónustu Landspítala. Þar heyrði ég um frábært uppbyggingarstarf sem hefur verið unnið undir stjórn Júlíönu Guðrúnar Þórðardóttur deildarstjóra, Birnu Guðrúnar Þórðardóttur yfirlæknis, Berglindar Guðmundsdóttur yfirsálfræðings, Auðar Hafsteinsdóttur yfiriðjuþjálfa og fleiri. Einkenni þessarar þjónustu er skýr farvegur fyrir þá skjólstæðinga sem þurfa að leita sérhæfðrar aðstoðar vegna þunglyndis, geðhvarfa, átraskana og fleiri vandamála sem undir meðferðarlínuna falla. Þessi farvegur hefst með skýru mati á þörfum og síðan viðeigandi meðferð. Helstu áskoranirnar eru annars vegar að veita þjónustuna tímanlega, þar sem biðlistar eru í suma þætti þjónustunnar. Þar hefur hins vegar viðbótarfjárveiting HRN hjálpað og verið er að vinna niður biðlista eftir bestu getu. Húsnæðið er hin áskorunin og er brýnt að það sé bætt.
Mynd - frá vinstri: Emma Rún Antonsdóttir verkefnastjóri, Rafn Haraldur Rafnsson teymisstjóri batamiðstöðvar, Díana Liz Franksdóttir deildarstjóri, Birna Guðrún Þórðardóttir yfirlæknir, Páll Matthíasson forstjóri, Júlíana Guðrún Þórðardóttir deildarstjóri, Auður Hafsteinsdóttir yfiriðjuþjálfi, Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri.
IV.
Nýlega var Nýjum Landspítala ohf. úthlutað af hálfu BRE Global Ltd. lokaumhverfisvottun sjúkrahótels Landspítala. Hlaut NLSH ohf. hæstu BREEAM einkunn sem gefin hefur verið hér á landi eða 72,9% skor og „Excellent“ einkunn og er eina verkefnið hérlendis sem hlotið hefur þá einkunn. Í alþjóðlega BREEAM vottunarkerfinu er lagt mat á ýmsa þætti s.s. umhverfisstjórnun á byggingar- og rekstrartíma, góða innivist (hljóðvist, inniloftgæði og lýsing), góða orkunýtni og vatnssparnað. Þá er horft til vals á umhverfisvænum byggingarefnum, úrgangsstjórnunar á byggingar- og rekstrartíma, viðhalds vistfræðilegra gæða, nánasta umhverfis og lágmörkunar mengunar.
Sjúkrahótelið var tekið í notkun í febrúar 2019 og hefur verið rekið af Landspítala. Sjúklingar dveljast á hótelinu bæði í og eftir meðferð eftir því sem ástand þeirra leyfir og líklega hefur sjúkrahótelið verið sá einstaki þáttur í starfsemi spítalans sem mest jákvæð áhrif hefur haft á flæði sjúklinga. Sjúkrahótelið hefur einnig haft mikla þýðingu fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra og er mikil ánægja hjá notendum þess enda aðbúnaður til mikillar fyrirmyndar.
Góða helgi!
Páll Matthíasson