Í ljós hefur komið að tíðni skurðaðgerða við lífshættulegri flysjun í brjóstholshluta ósæðar var marktækt meiri fyrstu dagana eftir fullt tungl. Aukningin var þó tiltölulega lítil og orsakasambandið ekki augljóst og því talin þörf á frekari rannsóknum á viðfangsefninu. Í Interactive CardioVascular and Thoracic Surgery hefur verið birt vísindagrein um þetta sem íslenskir hjartaskurðlæknar komu að í samstarfi við 20 aðra kollega á 7 öðrum háskólasjúkrahúsum á Norðurlöndum.
Tíðni ýmissa sjúkdóma hjá mönnum hefur verið tengd mismunandi stöðu tungslins gagnvart jörðu (e. lunar phases). Má þar nefna geðsjúkdóma ýmiss konar en einnig rof á æðagúlum í kviðarholi og heila. Hafa niðurstöður rannsókna á þessum sjúklingahópum þótt misvísandi hvað varðar tengsl þessar sjúkdóma við gang tunglsins. Sama á við um tengsl lífshættulegrar flysjunar á ósæð (e. type A aortic dissection) við tunglstöðu, en ósæðin er stærsta æð mannslíkamans og miðlar 5-6 L af blóði út úr hjartanu á mínútu. Helmingur þessara sjúklinga nær ekki lifandi inn á sjúkrahús og af þeim sem komast í skurðaðgerð lifir fimmtungur hana ekki af. Helsti áhættuþáttur ósæðarflysjunar er hækkaður blóðþrýstingur en aðrir áhættuþættir eru lítt þekktir að undanskyldum tengslum við sjaldgæfa erfðatengda bandvefssjúkdóma.
Rannsóknin náði til 2.995 sjúklinga sem gengust undir skurðaðgerð vegna bráðrar ósæðarflysjunar á 8 háskólasjúkrahúsum á Norðurlöndum 2005-2019. Könnuð var tíðni aðgerða eftir tunglhringnum og honum skipt í fjögur tímabil. Í ljós kom að aðgerðum fjölgaði í kringum fullt tungl og var tíðnin hæst 4-6 dögum frá fullu tungli.
Skýringin á þessari hækkun á fullu tungli er ekki talin augljós en svipuðum niðurstöðum hefur verið lýst áður. Ljóst þykir að breytingar á loftþrýstingi eftir tunglstöðu séu óverulegar en hins vegar hafa rannsóknir sýnt að djúpsvefn styttist þegar tungl er fullt. Einnig hefur verið sýnt fram á að styttri svefn stuðlar að hærri blóðþrýstingi, sem aftur getur aukið hættu á ósæðarflysjun. Þessi tilgáta er þó ósönnuð og talið ljóst að frekari rannsóknir þurfi til að staðfesta eða afsanna hana.
Rannsóknin er hluti af norrænu samstarfi, NORCAAD, sem skilað hefur vel á þriðja tug vísindagreina um skurðmeðferð vegna ósæðarflysjunar. Tómas, Guðbjartsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir á Landspítala, hefur leitt NORCAAD-rannsóknarhópinn en þessa rannsókn leiddu hjartaskurðlæknar og faraldsfræðingar við háskólasjúkrahúsið í Lundi.