Sigurður Ólafsson hefur tímabundið verið ráðinn yfirlæknir meltingarlækninga á Landspítala.
Sigurður mun gegna starfi yfirlæknis meltingarlækninga frá 16. ágúst 2021 til 30. júní 2022 í fjarveru Einars Stefáns Björnssonar sem er í rannsóknarleyfi.
Sigurður er sérfræðingur í meltingar- og lifrarlækningum og umsjónarlæknir lifrarlækninga á Landspítala. Hann er jafnframt klínískur dósent við læknadeild Háskóla Íslands. Sigurður úrskrifaðist frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1985 og og lauk síðan kandídatsári og frekari framhaldsmenntun á Landspítala. Hann hélt í kjölfarið til Bandaríkjanna þar sem hann lauk sérfræðinámi í almennum lyflækningum við Cleveland Metropolitan General Hospital og Case Western Reserve-háskólann árið 1991 og í meltingarlækningum og lifrarlækningum við Northwestern Memorial Hospital og Northwestern University School of Medicine í Chicago árið 1994.
Sigurður starfaði við Sjúkrahúsið á Akranesi 1994-2003 og frá árinu 1998 við Sjúkrahús Reykjavíkur og síðar Landspítala. Hann hefur undanfarin ár leitt meðferðarátak gegn lifrarbólgu C á Íslandi.