Kæra samstarfsfólk!
Það er óhætt að segja að tímamót hafi orðið í gær þegar við María Heimsdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, undirrituðum samning um framleiðslutengda fjármögnun hluta starfsemi spítalans. Heilbrigðisráðherra staðfesti samninginn við sama tækifæri. Á Landspítala höfum við afar lengi beðið eftir slíkum samningi og hófum raunar undirbúning að því fyrir næstum 20 árum. Árið 2016 undirrituðum við samning við þáverandi heilbrigðisráðherra um innleiðingu kerfisins en nú má segja að gengið hafi verið skrefinu lengi þar sem stór hluti klínískrar starfsemi spítalans verður nú fjármagnaður með þessum hætti. Hér er því kominn hvati til að framleiða meira og veita betri þjónustu, um leið og gæðaviðmið sem liggja að baki samningnum veita starfseminni aðhald og hvatningu. Áfram verður hluti starfseminnar svo sem menntun og vísindi fjármangaður á föstum framlögum, eins og tíðast víðast hvar.
Talandi um gæðaviðmið. Í vikunni var alþjóðlegi byltuvarnadagurinn (myndskeið) en byltur eru algengustu atvikin sem verða á sjúkrahúsum. Hugsanlega talar ekki orðið „bylta“ til margra utan stofnana en byltur fólks, sér í lagi aldraðra, er meiri háttar vandamál víða um heim. Á Landspítala höfum við því lagt mikla áherslu á byltuvarnir enda getur afleiðing byltu orðið einstaklingnum mjög alvarleg og skapað færniskerðingu sem jafnvel leiðir til þess að viðkomandi á ekki afturkvæmt heim til sín. Frá því að markviss skráning byltna hófst á spítalanum og aðgerðir í byltuvörnum hófust hefur náðst eftirtektarverður árangur, þeim hefur fækkað úr ríflega 1.000 í tæplega 800. Nú er að hefjast átak til að skerpa á byltuvörnum. Öflugur þverfaglegur byltuvarnahópur stendur fyrir átakinu og hefst handa öldrunardeildum enda byltur algengast þar. Byltur eru vissulega sérstakt vandamál á sjúkrahúsum en mig langar til að benda fólki á miklar og góðar upplýsingar fyrir almenning á ytri vef spítalans sem geta nýst heima fyrir.
Á Landspítala fer fram gríðarlega öflugt starf og margt af því fellur því miður í skuggann af dægurþrasi. Afbragðs dæmi um frábæra þjónustu og þróun starfseminnar eru þvagfæraskurðlækningar spítalans. Það er einnig sérstaklega skemmtilegt að í þeim hafa um áratuga skeið átt farsælt samstarf hjúkrunardeildarstjórinn Hrafnhildur Baldursdóttir og yfirlæknirinn Eiríkur Jónsson. Bæði eru sómi og stolt sinna stétta og flest sem útskrifast hafa úr hjúkrunarfræði eða læknisfræði hafa fengið tækifæri til að nema hjá þeim. Af nógu er að taka og margt er framundan. Fjórar meginstoðir eru undir starfseminni; göngudeild, dagdeild, legudeild og skurðdeild og gríðarleg þróun hefur orðið. Starfsfólkið er vakið og sofið yfir því verkefni að flytja þjónustuna úr dýrari úrræðum til skilvirkra og ódýrari kosta. Sjúkrahótelið hefur sannarlega reynst mikilvægt í að efla og auka skilvirkni þjónustunnar og má segja það fimmtu stoð starfseminnar.
Þvagfæraskurðlækningarnar eru í raun eitt besta dæmið um hugvitsamlega framþróun í flókinni starfsemi. Áður voru þrjár þungar legudeildir þvagfæraskurðlækninga á þremur sjúkrahúsum hér í borginni en starfsemin er nú sameinuð á einum stað í mun skilvirkara umhverfi. Sérstaklega er ánægjulegt að mikil samvinna er við sjúkrahúsin í landinu en sérfræðingar frá okkur heimsækja Norðfjörð, Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands reglulega. Í heimsókn minni í vikunni komst ég að því að þessir traustu stjórnendur eru fjarri því hættir að þróa starfsemina til móts við nýja tíma og lögðu fram fjölmargar hugmyndir. Starfið á þessum einingum er sérlega öflugt og landsmönnum öllum mikilvægt. Frábært starfsfólk og sérstaklega kraftmiklir stjórnendur, sem leggja áherslu á samvinnu, skipulag, frumkvæði og ábyrgð, eru okkur öllum fyrirmynd.
Takk fyrir viðburðaríka viku og góða helgi!
Páll Matthíasson
Mynd: Sandra Orlowska, starfsmaður á göngudeild þvagfæra 11A og sjúkraliðanemi sem vinnur í aðgerðaherberginu, Hrafnhildur Baldursdóttir deildarstjóri göngudeildar þvagfæra 11A, Eiríkur Jónsson yfirlæknir og Páll Matthíasson forstjóri.