Kæra samstarfsfólk!
Skjótt skipast veður í lofti. Eins og ykkur er kunnugt ákvað Páll Matthíasson að láta af störfum sem forstjóri Landspítala eftir átta farsæl ár. Það verður ekki auðvelt fyrir nýjan forstjóra að fylla það skarð. Fyrir hönd starfsfólks Landspítala færi ég Páli innilegar þakkir fyrir hans góðu störf á krefjandi tímum.
Þessar breytingar bar brátt að og í kjölfarið var ég beðin um að gegna starfi forstjóra til áramóta. Í dag, föstudag, var staðan auglýst laus til umsóknar og veitist hún frá 1. mars 2022.
Frá því ég tók við forstjórastarfinu og til áramóta eru um 80 dagar. Þetta tímabil mætti kalla ferð umhverfis spítalann á 80 dögum sem er tilvísun í fræga bók Jules Verne um ferðalag Phileasar Fogg og félaga umhverfis jörðina á 80 dögum.
Þetta eru mikil tímamót og viðkvæmur tími í ýmsum skilningi. Þar vega nokkrir þættir hvað þyngst; má þar fyrst nefna mönnun spítalans, nýtingu legurýma, biðlista eftir þjónustu, stöðuna í heimsfaraldrinum, útskriftarvanda og birtingarmynd hans á bráðamóttökunni. Í ytra umhverfi má nefna að það hefur ekki verið mynduð ríkisstjórn og því óljóst hver verður næsti heilbrigðisráðherra og hvaða áherslur sá ráðherra kemur til með að hafa hvað varðar spítalann. Þá er óvíst hvernig fjárheimildir til spítalans koma til með að vera á næsta ári. Allt þetta kallar á athygli, ákvarðanir og eftirfylgni.
Framkvæmdastjórn og forstöðumenn héldu sameiginlegan fund s.l. þriðjudag með það markmið að leita allra leiða til að draga úr álagi og því ástandi sem orðið er viðvarandi á bráðamóttökunni. Þau atriði sem ég lagði sérstaka áherslu á á fundinum voru eftirfarandi:
- Ákvarðanir sem við tökum eru fyrst og fremst út frá hagsmunum sjúklinga
- Nýta skipurit stofnunarinnar til hins ítrasta, þar með framlínustjórnendur
- Mikilvægi þess að horfa inn á við, á starfsemina og starfsfólkið
- Styðja eins og kostur er við starfsfólk sem hefur starfað undir álagi mánuðum saman
- Tryggja fjármagn til rekstrar og fullnægjandi mönnun
Á fundinum voru teknar nokkrar ákvarðanir og má þar nefna fjölgun legurýma fyrir áramót, vinna við að endurskoða læknisfræðilega ábyrgð eða tilfærslu ábyrgðar, fyrirkomulag endurkoma til bæklunarlækna, aðgengi að myndgreiningarþjónustu að nóttu og skipulag blóðtöku á legudeildum. Við munum fara betur yfir þessi verkefni sem og fleiri á fundi með stjórnendum í byrjun nóvember sem verður auglýstur síðar.
Við þurfum eins og Phileas Fogg að veðja á og trúa því staðfastlega að okkur takist ætlunarverkið. Til þess þurfum við að nota öll verkfærin og bjargráðin sem við eigum í sameiningu. Keðjan er aðeins eins sterk og veikasti hlekkurinn og því þurfum við öll að standa saman fyrir skjólstæðinga okkar, samstarfsfólk, nemendur og fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu.
Með góðri kveðju,
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir