Kæra samstarfsfólk!
Farsóttanefnd berast eðli máls samkvæmt ýmsar fyrirspurnir um mögulegar afléttingar og útfærslur sóttvarna á spítalanum. Við viljum hér tæpa á nokkrum atriðum sem vafalaust hafa komið til umræðu og vonandi geta þessir punktar stutt það samtal.
Langvarandi álag og erfiðleikar í starfsemi Landspítala eru öllum kunnir og kom faraldur COVID-19 sem olía á þann eld. Nú eru nær allar stéttir að upplifa langvarandi þreytu vegna faraldursins. Þá hefur gripið um sig óraunsæ bjartsýni í samfélaginu sem hefur smitast inn í stjórnmálin og lýsir sér með umræðum um miklar afléttingar og frelsi - nokkuð sem faraldurinn leyfir ekki endilega því ennþá eru að greinast 50-90 nýir sjúklingar á dag, fjöldinn í COVID göngudeildinni slagar í 800 og að meðaltali leggst einn sjúklingur inn á dag vegna COVID-19. Þá greinast 3-9 sjúklingar eða starfsmenn daglega óvænt með COVID-19 og fara þarf í mikla rakninga- og sóttkvíarvinnu vegna þeirra. Sem dæmi var 21 óvænt greining sjúklinga/starfsmanna eða útsetning frá heimsóknargestum um helgina sem setti marga í sóttkví eða einangrun!
Það er mikilvægt að muna að ef loka þarf einhverri þjónustu á Landspítala þá eiga sjúklingarnir ekki í önnur hús að venda til að fá þá þjónustu sem þeir þurfa, enginn annar spítali tekur við þeim.
Ábyrgð Landspítala gagnvart sínum skjólstæðingum og starfsmönnum er mikil. Okkur er skylt að tryggja öryggi sjúklinga og starfsmanna eins og frekast er unnt. Þátttaka í bólusetningum starfsmanna hefur verið nokkuð góð - um 90% eru fullbólusettir og þátttaka í endurbólusetningum var um 60%. Ennþá eru yfir 600 starfsmenn óbólusettir, af ýmsum ástæðum. Sjúklingar eru almennt vel bólusettir, sérstaklega eldri hóparnir. Hins vegar vitum við að eldri og ónæmisbældir sjúklingar svara bóluefnunum misvel, því sjáum við allnokkuð af smitum í þessum hópi, margir í þeim orðið mjög veikir og nokkrir látist nú í haust.
Við erum því neydd til að grípa til umfangsmeiri aðgerða innan Landspítala en þörf er á úti í samfélaginu.
Grímunotkun starfsmanna hefur margsannað gildi sitt hér innanhúss, nú hafa til dæmis yfir 800 starfsmenn lent í uppákomum þar sem þeir hafa veikst eða verið útsettir. Engin smit hafa orðið frá starfsmönnum til sjúklinga þegar grímur hafa verið notaðar og ekki heldur milli starfsmanna ef reglum hefur verið fylgt (grímunotkun og fjarlægðamörk). Hins vegar hafa orðið nokkur smit til starfsmanna bæði frá samstarfsfólki og eins frá sjúklingum þegar reglum um bólusetningar, grímunotkun og fjarlægðamörk hefur ekki verið fylgt.
Hvað varðar félagslíf og samkvæmi þá gerum við ekki aukna kröfu til starfsmanna úti í samfélaginu og í sínum frítíma en lögð eru almennt á landsmenn en hvetjum starfsmenn að sjálfsögðu til að gæta varúðar.
Námskeið, kennsla og ýmislegt fleira í vinnutíma hefur verið heimilað með ákveðnum verklagsreglum og takmörkunum en utan þess fylgir fólk almennum reglum.
Nú eru stórir faraldrar í skólum á öllum stigum og við sjáum mikið smitast í eldri hópa sem tengjast Landspítala. Tíðni smita fer hratt vaxandi eins og sést vel á tölulegum upplýsingum á covid.is
Þá er ykkur vafalaust kunnugt um hópsmit á 12G sem hefur þegar haft þær afleiðingar að deild A7 hefur nú verið breytt í farsóttareiningu og viðbragðsstig Landspítala er í endurskoðun.
Við erum því ennþá í hringiðunni og verðum að vanda okkur vel í vinnu, nú sem fyrr.
Með góðum kveðjum
F.h farsóttanefndar
Már Kristjánsson