Gunnar Rúnar Matthíasson sjúkrahúsprestur hefur verið ráðinn deildarstjóri sálgæslu presta og djákna við Landspítala frá 1. september 2021.
Gunnar Rúnar lauk embættisprófi í guðfræði, með áherslu á siðfræði, frá Háskóla Íslands 1986. Hann lauk sérnámi í verklegri sálgæslu frá University of Iowa Hospitals and Clinics í Bandaríkjunum 1989 og kennslu og handleiðslunámi í sama fagi við Northwestern Memorial Hospital í Chicago og The Association for Clinical Pastoral Education árið 1996.
Gunnar Rúnar starfaði sem sjúkrahúsprestur og síðan kennari við Northwestern Memorial Hospital í Chicago frá 1989-1996. Hann hefur starfað sem sjúkrahúsprestur við Sjúkrahús Reykjavíkur og Landspítala frá 1996 og kennt ýmis fög sálgæslu, fyrst í samstarfi guðfræðideildar Háskóla Íslands og spítalans og síðan innan Endurmenntunar Háskóla Íslands.
Gunnar Rúnar hefur einnig tekið þátt mörgum nefndum og þverfaglegu starfi bæði innan sjúkrahússins og utan þess á vegum frjálsra félagasamtaka, þjóðkirkjunnar og heilbrigðisráðuneytisins. Þá hefur Gunnar Rúnar lengi starfað fyrir stéttarfélag sitt, Sameyki, áður Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, þar sem hann hefur bæði setið í stjórn og samninganefnd auk þess að gegna þar ýmsum öðrum trúnaðarstörfum.