Farsóttanefnd vill koma eftirfarandi á framfæri á þessum síðasta föstudegi í október 2021:
1. Tilkynnt hefur verið um breyttar heimsóknarreglur á Landspítala. Nú má aðeins einn gestur heimsækja hvern sjúkling í að hámarki eina klukkustund á dag. Miðað er við auglýsta heimsóknartíma en eins og áður er deildum heimilt að hnika þeim tímasetningum til eftir því sem hentar starfseminni. Auglýstir heimsóknartímar eru hið almenna viðmið. Börn undir 12 ára aldri eiga ekki að koma á spítalann nema í samráði við forsvarsmenn deilda.
2. Um leyfi sjúklinga gilda sömu reglur og áður. Þau eru heimil þegar tilgangur leyfis er að undirbúa útskrift eða leyfið er mikilvægur hluti af endurhæfingu sjúklings. Miða skal við að sjúklingur fari heim til sín eða ættingja og hitta fáa. Leyfi eru ekki veitt til þess að sækja veislur eða önnur mannamót.
3. Gæðaskjal um skimanir inniliggjandi sjúklinga, sjúklinga sem leggjast inn brátt og sjúklinga sem flytjast á aðrar stofnanir er í fullu gildi og eru starfsmenn hvattir til að kynna sér það.
4. Nú hafa tekið gildi nýjar reglur um lengd sóttkvíar og einangrunar í samfélaginu. Eins og áður verður Landspítali að gæta ítrustu varúðar við afléttingu aðgerða til að vernda starfsemi sem enginn annar getur sinnt. Ef starfsmanni er skipað í sóttkví vegna nálægðar við smit í samfélaginu þá fær hann strikamerki fyrir sýnatöku á 5. degi í stað 7. dags áður. Ef það er neikvætt þá má hann snúa til vinnu og fylgir þá gildandi sóttvarnaráðstöfunum spítalans í hvívetna. Vinnusóttkví C vegna útsetningar í starfi verður áfram 7 dagar og lýkur með neikvæðu sýni á 7.degi.
5. Farsóttanefnd Landspítala hefur áhyggjur af fjölda smita í samfélaginu og þeim fjölda innlagna sem óhjákvæmilega leiðir af því. Áhrif á starfsemina eru mikil og geta til að sinna venjubundnum verkefnum minnkar eftir því sem umfangið vegna faraldursins stækkar. Nefndin vill ráðleggja starfsfólki Landspítala að hvika í engu frá persónubundnum sóttvörnum, nota grímur í margmennni, þvo og spritta af kappi og vera stöðugt á verði gagnvart mögulegum einkennum. Nýlegar afléttingar mildra og skynsamlegra sóttvarnaaðgerða hafa ekki reynst vel, hvorki á Íslandi né annars staðar.