Frá farsóttanefnd 8. nóvember 2021:
Landspítali er á hættustigi.
Samkvæmt skilgreiningu er hættustig þegar orðinn atburður kallar á að starfað sé eftir viðbragðsáætlun. Aukið og breytt álag er á fjölmargar starfseiningar. Þetta getur falið í sér bæði breytta starfsemi og tilflutning á verkefnum og starfsfólki.
Nú liggja 17 sjúklingar með COVID á Landspítala. Fjórir eru á gjörgæsludeild og tveir í öndunarvél. Í eftirliti COVID göngudeildar eru nú 1.156 einstaklingar og þar af eru 254 börn. 36 einstaklingar eru í sérstöku eftirliti.
- Á fimmtudag verður opnuð ný endurhæfingardeild fyrir aldraða á Landakoti.
- Á fundi farsóttanefndar og viðbragðsstjórnar í hádeginu var ákveðið að leggja allt kapp á að halda úti eins mikilli starfsemi og unnt er. Þetta á við starfsemi dag- og göngudeilda, rannsóknardeilda, skurðstofa og inngripseininga. Staðan er endurmetin daglega og oftar ef þarf. Aðgerðum verður ekki frestað nema brýna nauðsyn beri til.
- Allir sem eiga bókaða tíma á Landspítala næstu daga eiga að mæta nema haft verði samband við þá um frestun. Mögulegt er að grípa þurfi til frestana samdægurs.
Eins og áður er mjög mikilvægt að fólk láti vita og komi ekki ef það hefur einkenni sem geta samrýmst COVID eða ef það er í smitgát eða sóttkví.