Frá farsóttanefnd Landspítala:
Landspítali er á hættustigi
Í dag eru 14 sjúklingar á Landspítala með COVID. Þrír eru á gjörgæslu og tveir þeirra í öndunarvél. 10 sjúklingar eru á smitsjúkdómadeild og einn á geðdeild sem greindist síðdegis í gær.
Í gær greindust 168 einstaklingar með COVID. Það er því mjög mikið álag á COVID göngudeild. Símtölum til nýsmitaðra er forgangsraðað og mega þeir sem eru bólusettir, í yngri kantinum og ekki með nein undirliggjandi vandamál búast við að fyrsta símtal verði ekki fyrr en á næstu dögum.
- Óskað er liðsinnis bakvarða bæði innan og utan Landspítala í úthringiverið.
- Inniliggjandi sjúklingur á geðdeild greindist með COVID í gær. Hann var með neikvætt sýni við innlögn en fékk svo einkenni um helgina sem gátu bent til COVID og því var strax í gærmorgun tekið einkennasýni sem reyndist jákvætt. Viðkomandi er í einangrun og sex samsjúklingar í sóttkví. Þá voru þrír nýútskrifaðir sjúklingar einnig settir í sóttkví. Rakning í starfsmannahópnum stendur yfir og er ljóst að nokkur hópur starfsmanna þarf í sóttkví vegna smitsins en heildarfjöldi þeirra liggur ekki fyrir fyrr en síðdegis. Allir sjúklingar á deildinni voru skimaðir í morgun og er niðurstöðu að vænta þegar líður á daginn.
- Í ljósi þess hve margir starfsmenn geðþjónustu þurfa í sóttkví vegna þessa er óskað liðsinnis einstaklinga með bakgrunn í geðheilbrigðisþjónustu, bæði faglærðra jafnt sem ófaglærðra.