Skýrsla með niðurstöðum vinnustofu um rétta geðheilbrigðisþjónustu á réttum stað hefur verið birt á vef Stjórnarráðs Íslands.
Heilbrigðisráðherra fól forstjóra Landspítala þann 18. maí 2021 að halda þjónustuferlavinnustofu undir formerkjunum „rétt geðheilbrigðisþjónusta á réttum stað“ með fulltrúum notenda og allra þjónustuveitenda geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. Markmiðið var að skila tillögu að bættu þjónustuferli til að mæta þörfum notenda og fjölskyldna þeirra.
Vinnustofan var haldin í safnaðarheimili Háteigskirkju 15. og 16. júní 2021. Þar komu saman tæplega 100 manns, bæði fagfólk og notendur. Ætlunin er að nýta niðurstöðurnar í stefnumótun um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.