Tvö hágæslustæði hafa verið opnuð á gjörgæsludeildinni á Landspítala Hringbraut.
Nýju hágæðslustæðin verða í tengslum við gjörgæslustæði sem fyrir eru. Einnig er fyrirhugað að opna tvö hágæslustæði á gjörgæsludeildinni í Fossvogi í janúar 2022 og önnur tvö þar síðar á árinu. Hágæslurými gjörgæsludeildanna verða sérstaklega merkt sem slík á skjáborði deildanna.
Sjö gjörgæslurými eru opin á hvorri gjörgæsludeild en hágæslustæði hafa ekki verið til staðar á sjúkrahúsinu. Hágæslusjúklingar hafa því að jafnaði vistast á gjörgæsludeildunum en nú er verið að auðvelda slíkar innlagnir, meðal annars með því að breyta mönnun í kringum þessa sjúklinga.
Undir venjulegum kringumstæðum þurfa gjörgæslusjúklingar hjúkrunarmönnun sem byggir á að einn hjúkrunarfræðingur sinni einum sjúkling (1:1). Á hágæsludeild er gert ráð fyrr að einn hjúkrunarfræðingur sinni tveimur sjúklingum (1:2) og einn sjúkraliði fjórum sjúklingum (1:4).
Fjöldi gjörgæslusjúklinga er nokkuð breytilegur á hverjum tíma en nú er gert ráð fyrir 7 gjörgæslustæðum á hvorri gjörgæsludeild. Fjöldi COVID sjúklinga á gjörgæsludeildunum getur haft áhrif á fjölda opinna gjörgæslurúma og hágæslurúma þar sem gjörgæslumeðferð COVID sjúklings er tvöfalt mannaflafrekari og það þarf meira rými fyrir hvern sjúkling. Innlagnir eru ákveðnar í samráði vakthafandi gjörgæslulækni gjörgæslu og hágæsludeildar og vakthafandi sérfræðings í þeirri sérgrein sem sjúklingurinn tilheyrir. Endanleg ákvörðun um innlögn á hágæsludeild/gjörgæslu er í höndum sérfræðings á vakt gjörgæsludeildar í samráði við vaktstjóra gjörgæslu eftir rýmastöðu og mönnun. Að jafnaði á sjúklingur ekki að liggja lengur en 72 klukkustundir á hágæslueiningu.
Markmið með opnun hágæslurýma er að tryggja öryggi og vöktun á veikum sjúklingum sem þurfa náið eftirlit þar til ástand þeirra telst nægjanlega stöðugt til að flytjast á almenna bráðalegudeild.
Þess má geta að fyrir tæplega tveimur árum opnuðu 4 hágæslustæði á deild B6 í Fossvogi fyrir sjúklinga sem tilheyra heila- og taugaskurðlækningum. Við opnun þeirra stæða létti mikið á gjörgæslunni í Fossvogi, meðal annars vegna þeirra sjúklinga sem áður þurftu gjörgæslu eftir ákveðnar aðgerðir en fara nú beint á hágæsluna á B6.
Til marks um jákvæð áhrif hágæslustæðanna í Fossvogi, þá hefur ekki þurft að aflýsa heila- eða taugaskurðaðgerð vegna plássleysis á gjörgæsludeild þar síðan þau komu til sögunnar. Einnig eru sjúklingar að útskrifast fyrr af gjörgæslu en ella. Mikil vinna var lögð í undirbúning og þróun hágæslueiningarinnar í Fossvogi.