Landspítali er á hættustigi
Í dag liggur 21 sjúklingur á Landspítala vegna COVID. Af þeim eru 15 í einangrun (12 á smitsjúkdómadeild og 3 á gjörgæslu). Alls eru 5 sjúklingar á gjörgæslu vegna COVID og allir í öndunarvél.
Í gær komu 10 einstaklingar til mats og meðferðar í göngudeildinni. Tveir lögðust inn.
1.325 eru í símaeftirliti, þar af 414 börn. 30 starfsmenn eru frá vinnu vegna einangrunar eða sóttkvíar.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
- Í dag vill farsóttanefnd ítreka reglur fyrir starfsfólk Landspítala sem á að koma til vinnu en heimilismaður fer í einkennasýnatöku. Ef starfsmaðurinn er fullbólusettur þá má hann koma til vinnu og nota fínagnagrímu án ventils (sjá mynd, eingöngu nota grímuna sem er vinstra megin). Hægt að panta í vefverslun. Ef heimilismaður sem fer í einkennasýnatöku er í sóttkví þá ber starfsmanni að vera heima þar til niðurstaða liggur fyrir.
- Upplýsingar fyrir skjólstæðinga Landspítala sem koma yfir landamæri og eiga bókaðan tíma í rannsókn, meðferð eða aðgerð á Landspítala skömmu eftir komuna til landsins:
1. Fullbólusettir einstaklingar mega koma í viðtöl, meðferð og rannsóknir á göngudeildum eftir að sýni sem tekið er á landamærum hefur verið svarað neikvæðu.
2. Fullbólusettir einstaklingar sem eiga bókaðan tíma í meðferð/aðgerð/inngrip sem tekur meira en 4 klst. eiga ekki að koma fyrr en 5 dagar eru liðnir frá heimkomu. Ef erindið getur ekki beðið þá er viðkomandi í sóttkví innan spítalans og þarf að hlíta reglum sem um það gilda.
3. Fullbólusettir einstaklingar sem leggjast inn á spítalann innan við 5 dögum eftir komu yfir landamæri eru í sóttkví þar til sýni á 5. degi hefur verið svarað neikvæðu.
4. Óbólusettir einstaklingar sem koma yfir landamæri eru í 5 daga heimasóttkví með tvöfaldri sýnatöku og mega ekki koma inn á spítalann nema með sérstakri undanþágu ef erindið getur ekki beðið.
5. Óbólusettir einstaklingar sem leggjast inn á spítalann áður en þeir hafa skilað seinna landamærasýni eru í sóttkví á Landspítala þar til sýni á 7. degi hefur verið svarað neikvæðu.
Ofangreindar upplýsingar verður að finna á upplýsingasíðu Landspítala um COVID-19.
- Fullbólusettir heimsóknargestir eru velkomnir eftir neikvætt PCR á landamærum en aðeins í samráði við viðkomandi deild vegna heimsóknartakmarkana.
- Tekin hefur verið sú ákvörðun að á meðan eins metra fjarlægðarregla er í gildi skuli miða fjölda í fundarsal á Landspítala við 60% af uppgefinni tölu nema í Hringsal. Þar er 50 manna hámark.