Í upphafi árs 2022 hyggst Landspítali sameina legudeildarþjónustu við sjúklinga með krabbamein sem þurfa innlögn. Breytingin á við um sjúklinga í lyfjameðferð vegna krabbameina í kvenlíffærum og þurfa innlögn á Landspítala. Þeir munu frá 1. janúar leggjast inn á blóð- og krabbameinslækningadeild 11EG í stað kvenlækningadeildar 21A eins og áður. Hjúkrunarfræðingar og læknar kvenlækningadeildar og blóð- og krabbameinsdeildar hafa unnið náið saman við að undirbúa þessa breytingu undanfarna mánuði.
Vigdís Hallgrímsdóttir, forstöðumaður krabbameinsþjónustu Landspítala:
„Markmið breytinganna er að halda áfram að efla og styrkja þjónustu við sjúklinga með krabbamein sem þurfa á innlögn að halda og samræma þjónustuna. Samhliða þessum breytingum fjölgar legurýmum á blóð- og krabbameinslækningadeild 11EG úr 28 í 30 og rýmum á kvenlækningadeild 21A fækkar um tvö.
Til að taka vel á móti þessum hópi hafa verið gerðar umtalsverðar endurbætur á húsnæði 11EG með það að markmiði að fjölga legurýmum á deildinni og bæta aðbúnað fyrir bæði sjúklinga og aðstandendur. Það er kjarni aðfanga og umhverfis á Landspítala sem hefur átt veg og vanda að þessum framkvæmdum og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir, sem og samtökunum Lífskrafti en þau hafa stutt dyggilega við verkefnið með fjármunum sem söfnuðust þegar 100 konur gengu á Hvannadalshnjúk í maí 2021.“
Dögg Hauksdóttir, forstöðumaður kvenna- og barnaþjónustu Landspítala:
„Við höfum undirbúið þetta umfangsmikla verkefni og flutningana sjálfa eins vel og kostur er. Við lítum þetta sem stórt framfaraskref fyrir þennan skjólstæðingahóp enda um að ræða mikilvægar endurbætur á umhverfi sjúklinga og aðstandenda.“
Dögg kveður breytinguna eiga við um þá sjúklinga með krabbamein í kvenlíffærum sem eru í krabbameinslyfjameðferð eða einkennameðferð eingöngu og hafa lokið skurðaðgerð og innri geislameðferð þar sem það á við. „Sjúklingar sem þurfa á skurðaðgerð að halda munu hins vegar áfram leggjast inn á á kvenlækningadeild 21A og bráðaþjónusta við þann hóp ekki breytast að svo stöddu.“