Fósturgreining kvenna- og barnaþjónustu Landspítala flytur tímabundið um nú miðjan desember 2021 í Skógarhlíð 8 vegna víðtækra endurbóta og framkvæmda við húsnæði deildarinnar á spítalanum.
Um er að ræða deild 21B. Í húsi Krabbameinsfélagsins að Skógarhlíð 8 hefur verið innréttað hentugt og rúmgott húsnæði fyrir þessa starfsemi Landspítala með góðu aðgengi og fjölda bílastæða.
"Þetta er sérstaklega ánægjuleg breyting fyrir fósturgreiningardeildina 21B sem hefur verið í talsverðum húsnæðisvandræðum og starfrækt í of litlu og raunar heilsuspillandi rými fyrir bæði starfsfólk og skjólstæðinga deildarinnar. Þetta er stærsta sérhæfða fósturgreiningadeild landsins þannig að ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi starfseminnar og hversu áríðandi það er að hlúa vel að viðkvæmum skjólstæðingahópi hennar," segir Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir hjá kvenna- og barnaþjónustu Landspítala.
"Við fögnum þessum flutningum og þeim umbótum sem á nú að ráðast í á húsnæði þessarar starfsemi við Hringbraut. Það er ekki komin tímasetning á flutninga deildarinnar aftur að Hringbraut en við bindum miklar vonir við að framkvæmdirnar á 21B verði stórt umbótaskref fyrir starfsemina þegar að þeim lýkur," segir Dögg Hauksdóttir, forstöðumaður kvenna- og barnaþjónustu Landspítala.
Þess má geta að skjólstæðingar kvenna- og barnaþjónustu Landspítala fá alltaf SMS smáskilaboð þar sem fram kemur hvert og hvenær þeir eigi að mæta í fósturgreiningu. Jafnframt verða send út sérstök skilaboð á skjólstæðinga til að tilkynna flutningana. "Skjólstæðingar okkar munu því ekki vera í neinni óvissu þrátt fyrir þessar breytingar. Við munum passa vandlega upp á það," bætir Dögg við.