Landspítali er á hættustigi
Í dag liggja 11 einstaklingar á Landspítala vegna COVID, níu þeirra eru í einangrun, tveir eru á gjörgæslu, annar þeirra í öndunarvél.
1.807 eru í símaeftirliti, þar af 654 börn. Um helgina voru fjórar innlagnir, þrjár útskriftir og eitt andlát. Heldur færri hafa komið til mats og meðferðar í göngudeild.
Aðgerðir vegna mikillar útbreiðslu smita í samfélaginu
1. Heimsóknir - engar heimsóknir eru leyfðar nema með sérstökum undantekningum frá og með hádegi í dag 20. desember fram til hádegis 24. desember. Þann dag, jóladag og annan jóladag verða leyfðar heimsóknir eins gests til hvers sjúklings. Farið er fram á að viðkomandi sé fullbólusettur eða hafi fengið COVID á síðastliðnum sex mánuðum. Heimsóknargestir skulu nota fínagnagrímu án ventils en þær verða aðgengilegar við innganga og á deildum. Heimsóknir barna undir 12 ára aldri eru óheimilar nema undir sérstökum kringumstæðum og þá aðeins með leyfi stjórnenda viðkomandi deilda.
2. Eindregið er mælt gegn leyfum sjúklinga heim um hátíðarnar en ef mat yfirmanna deilda er að slíkt sé mikilvægt af mannúðarástæðum þá er það framkvæmanlegt með ströngum skilyrðum. Hafa skal samráð við farsóttanefnd um framkvæmd leyfa.
3. Taka skal upp hólfaskiptingu á öllum starfseiningum þar sem því verður við komið.
4. Hvatt er til þess að starfsmenn sem eiga þess kost vinni heiman frá sér.
5. Á morgun, þriðjudag, og á miðvikudag verður starfsmönnum spítalans boðið upp á örvunarbólusetningu fyrir þá sem luku grunnbólusetningu fyrir 5 mánuðum eða meira eða hafa aðeins fengið eina bólusetningu með bóluefninu frá Janssen. Starfsfólk er eindregið hvatt til að nýta sér þá tíma sem auglýstir hafa verið og til að skrá sig í síma 543 1330 sem allra fyrst. Einnig er bólusett í Laugardalshöll skv. skipulagi sem auglýst er á vef heilsugæslunnar.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.