Vökudeildinni barst vegleg gjöf nú fyrir jólin 2021. Guðlaug Rún Gísladóttir og Árni Gunnar Ragnarsson halda minningu sona sinna á lofti og styðja málefni sem standa þeim nærri.
Báðir synir þeirra hjóna fæddust fyrir tímann. Dagur Freyr fæddist 14 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag en lést einungis 6 daga gamall. Hlynur Snær, yngri sonur hjónanna, fæddist 10 vikum fyrir tímann og dvaldi á Vökudeild fyrstu tvo mánuði lífs síns. Hlynur Snær lést í október 2018, aðeins 16 ára að aldri.
Skömmu eftir að Hlynur Snær féll frá var stofnaður minningarsjóður í hans nafni, Minningarsjóður Hlyns Snæs. Hann hefur nýtt Reykjavíkurmaraþonið til að halda minningu bræðranna á lofti og safnað um leið pening fyrir góðum málstað. Vökudeildin fær í ár að njóta góðs af söfnuninni og er tilefnið það að 20 ár eru liðin frá því að Dagur Freyr kom í heiminn. Fjölmargir einstaklingar og fyrirtæki lögðu söfnuninni lið og söfnuðust rúmlega 1,3 milljónir króna.
Gjöfin verður nýtt til þess að styðja við þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra og er ætlunin að kaupa ljósateppi sem nýtast við meðferð á nýburagulu. Ljósateppin eru aðallega notuð við gulumeðferð á Vökudeildinni en munu jafnframt gera kleift að veita ljósameðferð í heimahúsum sem getur í völdum tilfellum komið í veg fyrir að nýburi þurfi að leggjast inn á sjúkrahús til ljósameðferðar. Verkefnið er á byrjunarstigi en með réttum tækjabúnaði er talið auðveldara að láta það verða að veruleika.
Fyrirtæki sem lögðu söfnuninni lið:
• 1xInternet
• AB varahlutir
• Atmos Cloud
• BDO endurskoðun
• Bílaland
• Edico
• Eirberg
• Eyjablikk
• Húsasmiðjan
• ÍslandsApótek
• Kvan
• Parket og gólf
• Sérefni
• Vita