Landspítali er á hættustigi.
Í dag liggja 14 sjúklingar inni með COVID-19. Fimm eru á gjörgæslu, þrír í öndunarvél. Um helgina voru alls 10 innlagnir og 5 útskriftir. Ekki liggja fyrir upplýsingar um veiruafbrigði allra inniliggjandi en a.m.k. tveir eru með ómíkron afbrigðið.
Í fjarþjónustu er fjöldinn kominn í 4.335 og þar af eru 1.033 börn. Í gær greindust alls 672 ný smit og má búast við að þessi tala fari hækkandi næstu daga. 105 eru á gulu og enginn rauður.
Göngudeildin, smitrakningin, farsóttanefnd og sýkla- og veirufræðideild ásamt fjölmörgum öðrum eru undir gríðarlegu álagi og er starfsfólk beðið um að fylgjast vel með daglegum tilkynningum farsóttanefndar og viðbragðsstjórnar þar sem fram koma þær aðgerðir sem gripið er til hverju sinni.
1. Starfsmenn sem eru í einangrun mega ekki koma til vinnu fyrr en tíu daga einangrun er lokið. Upplýsingar um einangrun og sóttkví er að finna á covid.is
2. Fullbólusettir (að lágmarki 2 skammtar), einkennalausir starfsmenn sem eru í sóttkví vegna útsetningar í samfélaginu mega koma til vinnu í sóttkví B að undangengnu mati yfirmanns á mikilvægi vinnuframlags viðkomandi. Ekki er nauðsynlegt að sækja um til farsóttanefndar en sjálfsagt að leita ráðgjafar ef mál eru óvenju flókin. Hér eru reglurnar um framkvæmd sóttkvíar B1 sem hver og einn verður að kynna sér vel. Vinnusóttkví B-1 er notuð þegar vinnuframlag starfsmanns, sem er útsettur fyrir COVID-19 í starfi á Landspítala, er nauðsynlegt.
3. Vegna gríðarlegs álags á smitrakningateymi Almannavarna er seinkun á því að fólk sé skráð í sóttkví. Ef fólk telur sig útsett þá á það að líta svo á að það sé í sóttkví og biðja upphafstilfellið að skrá þau í skráningarhlekk sem allir nýsmitaðir fá sendan frá rakningarteyminu.
4. Unnið er að því að gera allar nýjustu upplýsingar um gildandi reglur enn aðgengilegri á miðlum spítalans.
5. Nú er í gildi algjört heimsóknarbann á Landspítala sem gildir fram til hádegis á gamlársdag, 31. desember. Stjórnendur deilda geta gefið undanþágur frá þessu.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.