Ákveðið hefur verið að setja Landspítala á neyðarstig samkvæmt viðbragðsáætlun spítalans
- Eins og kunnugt er hefur álag verið mikið á Landspítala lengi og mjög vaxandi undanfarnar vikur. Það á sér margar skýringar en fyrst ber að nefna mikla og hraða útbreiðslu á Covid-19 í samfélaginu sem og innan spítalans en nú er svo komið að yfir 100 starfsmenn geta ekki mætt til vinnu og sinnt sjúklingum vegna COVID smits. Annar eins hópur er í sóttkví og hefur verið gripið til þess neyðarúrræðis að kalla inn til vinnu starfsmenn sem eru skilgreindir í sóttkví í samfélaginu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
- Tiltekinn hluti legurýma er sérútbúinn fyrir sjúklinga sem eru með COVID og þau rými flest í notkun og ekki laus fyrir aðra. Innlögnum á spítalann vegna COVID fer fjölgandi og nú hafa bæst við smit sem hafa greinst óvænt innan spítalans t.d á bráðamóttökum, hjartadeild, Landakoti og fleiri deildum. Nú er svo komið að margar deildir þurfa að sinna COVID smituðum skjólstæðingum þar sem þeir greinast. Við þetta bætist síðan að ekki hefur náðst að útskrifa fólk sem þegar hefur lokið meðferð á spítalanum.
- Að undanförnu hafa heilbrigðisráðuneyti, Sjúkratryggingar Íslands, forstjórar heilbrigðisstofnana um landið og forstjóri Landspítala verið í þéttu samstarfi um flutning sjúklinga sem geta lokið sjúkrahúslegu eða endurhæfingu á öðrum heilbrigðisstofnunum.
Heilbrigðisstofnanir taka á móti 30 sjúklingum til að létta álagi af Landspítala
Nú liggur 21 sjúklingur á spítalanum með COVID, þar af eru 18 með virkt smit. Fjórir eru á gjörgæslu, þrír í öndunarvél. Tveir sjúklingar eru „post covid“ og glíma við eftirköst.
Í gær greindust sjö sjúklingar inniliggjandi, sex þeirra á hjartadeild og einn á Landakoti. Sýnatökur og smitrakning eru í gangi skv. áætlun. Ekki hafa greinst fleiri sjúklingar. Sýnatökum starfsmanna er ekki lokið.
Í fjarþjónustu COVID göngudeildar eru nú 5.126, þar af 1.142 börn. 185 eru gulir og einn rauður.
Tæplega 100 starfsmenn eru í einangrun en í gær greindust 23 starfsmenn með COVID-19. Fjölmargir eru í sóttkví en sækja vinnu í sóttkví B.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
- Farsóttanefnd og viðbragðsstjórn hafa þungar áhyggjur af stöðunni í faraldrinum. Fordæmalaus fjöldi smita greinist á degi hverjum og má búast við innlögnum í kjölfarið á því. Þá eru smit sem greinast inni í starfseminni bæði hjá sjúklingum og starfsmönnum og er mikil vinna fólgin í að rekja, skima og fyrirbyggja smitdreifingu ásamt því að taka sýni og vinna þau.
- Mönnun er mikil áskorun en vonir standa til að rýmkist um legurýmin með flutningum sjúklinga á aðrar heilbrigðisstofnanir. Mikilvægt er að allir leggist á eitt um að það verkefni gangi vel fyrir sig.