Í dag liggja 38 sjúklingar á Landspítala ýmist með eða vegna COVID. Með virkt smit og í einangrun er 31. Á gjörgæslu eru 8, þar af 6 í öndunarvél.
Í gær voru 6 innlagnir og 4 útskriftir.
Tæplega 10 þúsund manns eru í fjarþjónustu og er göngudeildarstarfsemin mjög umfangsmikil.
Um 200 starfsmenn eru í einangrun og álíka stór hópur í sóttkví.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
- Nú eru nýjar reglur um sóttkví þríbólusettra gengnar í gildi og er fólk hvatt til að kynna sér þær. Nýju reglurnar breyta litlu gagnvart Landspítala að því leyti að bæði þríbólusettir og fullbólusettir (tvær sprautur) mega sækja vinnu í sóttkví B þrátt fyrir útsetningu. Ekki er krafist eins tíðrar sýnatöku hjá þríbólusettum en þeir verða boðaðir í sýnatöku að Suðurlandsbraut á 5. degi eins og verið hefur til að ljúka sóttkví. Fólk er þó eins og áður eindregið hvatt til að fara strax í sýnatöku ef minnstu einkenni gera vart við sig.
- Allar deildir spítalans verða að búa sig undir að geta sinnt COVID sjúklingum. Starfsfólk er hvatt til að gæta að hlífðarbúnaði og fara vel yfir notkun hans en allar leiðbeiningar er að finna í gæðaskjölum í COVID handbók.