Landspítali er á neyðarstigi
Í dag liggja 36 einstaklingar með COVID á Landspítala. 29 eru í einangrun, 7 eru lausir úr einangrun. Á gjörgæslu eru 7 og eru 5 þeirra í öndunarvél.
Í gær létust tveir karlmenn á níræðisaldri vegna COVID.
Tvær innlagnir voru í gær og 4 útskriftir (þar af tvö andlát).
Nú liggja COVID sjúklingar á átta deildum Landspítala. Talsvert er um að fólk í einangrun eða sóttkví leiti til bráðamóttöku ýmist vegna COVID eða annarra vandamála. Daglega koma á þriðja tug til mats og meðferðar í COVID göngudeild.
Nú eru 175 starfsmenn í einangrun og fækkar heldur á milli daga. 170 starfsmenn eru í sóttkví og eru 53 við störf í vinnusóttkví.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
- Miklar annir eru í fjarþjónustu og hefur kerfið ekki undan að þjónusta fólk eins og gert var ráð fyrir. Því gáfu Almannavarnir út tilkynningu í gær vegna útskriftar úr einangrun sem mikilvægt er að fólk kynni sér vel. Þeir sem lokið hafa sjö daga einangrun eftir staðfest smit af völdum Covid-19 geta nú og mega útskrifa sig sjálfir, að því tilskildu að þeir finni ekki fyrir sjúkdómseinkennum. Covid-göngudeild Landspítala hefur alla jafna samband við fólk fyrir útskrift en vegna mikils álags er ekki skylt að bíða eftir skilaboðum frá Covid-göngudeildinni að því gefnu að öll skilyrði fyrir útskrift séu uppfyllt. Einangrun hefst frá þeim tíma að telja sem fyrir liggur jákvætt PCR-próf um sýkingu viðkomandi. Hvorki jákvætt heimapróf né hraðpróf telst viðmið fyrir upphaf einangrunar.
- Í framhaldi af breytingu á reglum um sóttkví þríbólusettra skal áréttað að þessar reglur gilda einnig fyrir tvíbólusetta sem hafa fengið COVID-19. Sjá nánar hér. Þeir starfsmenn Landspítala sem þetta gildir um geta sótt vinnu í sóttkví B með lokasýnatöku á 5. degi skv. boðun Almannavarna