Vísindasjóður Landspítala auglýsir styrki vegna úthlutunar vorið 2022 Styrkirnir eru ætlaðir til metnaðarfullra vísindaverkefna sem líkleg eru til að leiða til birtinga í góðum ritrýndum alþjóðlegum tímatritum. Frestur til að senda inn umsókn rennur út á miðnætti 31. janúar 2022.
Upphæð styrkja: Hver styrkur Vísindasjóðs Landspítala vorið 2022 er að hámarki 2.000.000 og skal ekki sækja um hærri upphæð.
Helstu skilyrði styrkveitingar
- Umsókn er í samræmi við leiðbeiningar og reglur um úthlutun styrkja úr Vísindasjóði.
- Tilskilin leyfi frá viðeigandi siðanefnd (-um) eru þegar til staðar.
- Aðalumsækjandi er fastráðinn starfsmaður Landspítala í a.m.k. 30% starfi.
- Fullnægjandi framvinduskýrsla fylgir umsókn ef um framhaldsverkefni er að ræða.
- Með umsókn fylgja uppfærðar ferilskrár og ritalistar umsækjenda.
- Allar umbeðnar upplýsingar fylgja umsókn.
Mikilvægar upplýsingar
- Aðeins einn styrkur er í boði fyrir hvert vísindaverkefni.
- Hver aðalumsækjandi getur að hámarki sent inn 3 styrkumsóknir og þá til þriggja mismundandi vísindaverkefna.
- Ekki skal sækja um styrk fyrir vísindarannsókn sem fékk styrk fyrir ungt vísindafólk Landspítala í desember 2021.
- Ef um er að ræða meistara- eða doktorsverkefni skal að öllu jöfnu leiðbeinandinn vera aðalumsækjandi.
- Rannsókn sem flokkast til gæðaverkefnis er ekki styrkt.
- Vísindarannsókn/verkhluta vísindarannsóknar sem þegar er lokið er ekki styrkt.
- Að öllu jöfnu er ekki hægt að fá oftar styrk til sama verkefnis en þrisvar sinnum úr Vísindasjóði Landspítala nema birtar hafi verið niðurstöður úr verkefninu í ritrýndu vísindagrein í góðu fagrímariti.
- Ef ætlunin er að sækja um styrk til verkefnis sem þegar hefur hlotið þrjá styrki úr sjóðnum, án greinabirtingar, skal fylla út sérstakt eyðublað fyrir viðbótarstyrk.
Mat á umsóknum: Umsóknir eru metnar með tilliti til vísindalegs gildis og nýnæmis verkefna og gæða umsókna. Einnig hefur vísindalegur bakgrunnur og reynsla aðalumsækjenda áhrif á matið. Vísindaráð Landspítala hefur umsjón með mati á umsóknum til sjóðsins.
Leiðbeiningar: Ítarlegar leiðbeiningar til að styðjast við um gerð vísindaumsóknar er að finna á innri vef Landspítala. Einnig er að finna stytta útgáfu leiðbeininga í spurningamerki (?) við hvern lið rafræns umsóknareyðublaðs. Umsókn er skilað í gegnum rafrænt styrkumsjónakerfi Landspítala.
Skil á framvindu- eða lokaskýrslum: Styrkþegar úr Vísindasjóði þurfa að skila skýrslu þegar verkefni lýkur. Ef verkefni er ekki lokið innan 16 mánaða frá afhendingu styrks og ekki hefur verið sótt um framhaldsstyrk þarf styrkhafi að skila framvinduskýrslu. Lokaskýrslu verkefnis er hægt að skila inn hvenær árs sem er en skilafrestur framvinduskýrslu rennur út 15. september, rúmu ári eftir úthlutun. Rafrænt eyðublað til skýrslugerðar er að finna í rafrænu rannsóknar- og styrkumsjónarkerfi Landspítala.
Nánari upplýsingar: Valgerður M. Backman, verkefnisstjóri hjá vísindaráði Landspítala (visindarad@landspitali.is), sími 543 1410.