Landspítali er á neyðarstigi
Í dag liggja 45 með COVID á Landspítala, þar af eru 32 í einangrun með virkt smit. Á gjörgæslu eru 6 sjúklingar, 3 í öndunarvél.
Í gær bættust 7 í COVID hópinn og 3 útskrifuðust.
Á Landakoti eru nú 6 með COVID og eru áfram umfangsmiklar skimanir þar næstu daga. Þá eru áframhaldandi skimanir á hjartadeild þar sem nokkur fjöldi hefur greinst að undanförnu, bæði við innlögn og inniliggjandi. Starfsemi hjartadeildar er engu að síður í fullum gangi og sýnir starfsfólkið mikinn dugnað og hugvit við að leysa þetta flókna verkefni.
Fleiri deildir eru að glíma við COVID verkefni og leysa þau jafnharðan með miklum sóma. Minnt er á ráðgjöf og vefsíðu sýkingavarnadeildar varðandi hlífðarbúnað og vinnubrögð.
Í fjarþjónustu COVID göngudeildar er nú alls 7.951, þar af eru 2.679 börn. Í gær komu 18 til mats og meðferðar í COVID göngudeild.
Á meðfylgjandi mynd má glögglega sjá hvernig umfangið á göngudeildinni hefur aukist jafnt og þétt að undanförnu.
Sérstakar tilkynningar
1. Fullbólusettur starfsmaður sem kemur til vinnu eftir COVID sýkingu má koma til starfa strax eftir útskrift úr COVID göngudeild svo framarlega að hann sé einkennalaus (hósti er undanskilinn þar sem hann varir oft í nokkurn tíma). Sé hann ennþá með önnur einkenni eftir 7 daga einangrun skal hann vera áfram heima þar til 10 dagar eru liðnir. Yfirmaður sækir um sóttkví C fyrir starfsmanninn til farsóttanefndar. Hún stendur í 7 daga eftir útskrift.
2. Óbólusettur starfsmaður sem kemur til vinnu eftir COVID sýkingu skal vera heima í 14 daga. Þá má yfirmaður sækja um sóttkví C fyrir hann til farsóttanefndar. Hún gildir í 7 daga í viðbót.
3. Skjólstæðingar mega sækja sér þjónustu Landspítala þegar þeir eru útskrifaðir úr einangrun og að sjálfsögðu fyrr ef erindið er brátt. Varðandi inngrip s.s. speglanir og aðgerðir sem þarfnast svæfingar þarf ákvörðunin um tímasetningu inngrips að takast af viðkomandi fagfólki.
4. Í gær, 14. janúar, voru send boð til um 1.260 manns í örvunarbólusetningu í næstu viku. Um er að ræða alla sem fundust í bólusetningalistum Landspítala sem eru núna komnir á tíma fyrir örvun. Ekki eru allir þessi einstaklingar ennþá í starfi en í samvinnu við heilsugæsluna var ákveðið að bjóða öllum hópnum bólusetningu í Laugardalshöll. Þar verður bólusett alla virka daga kl. 10:00-14:30. Starfsfólk er eindregið hvatt til að nýta þetta tækifæri og láta bólusetja sig. Þó nokkrir sem aðeins hafa fengið eina Janssen fengu boð og eru þeir hvattir sérstaklega til að mæta enda teljast þeir nú aðeins hálfbólusettir.