Landspítali er á neyðarstigi
Í dag eru 37 sjúklingar með COVID á Landspítala. Þar af eru 26 í einangrun, 3 á gjörgæslu og allir í öndunarvél og einn í ECMO (hjarta- og lungnavél). Í gær bættust 6 í hópinn og 7 voru útskrifaðir, þar af var eitt andlát á gjörgæslu.
Áfram eru fjölmargar skoðanir daglega í göngudeild COVID og leiða einhverjar þeirra til innlagna flesta daga.
Metfjöldi starfsmanna er nú í einangrun eða 213 en nú greinast daglega um 30-35 starfsmenn Landspítala með COVID.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Sérstakar tilkynningar
1. Þeir starfsmenn Landspítala sem eru bólusettir með Sinovac eða Covishield (Astra Zeneca) mega gjarnan gefa sig fram við starfsmannahjúkrunarfræðinga og afhenda þeim afrit af bólusetningaskírteinum. Verið er að leita leiða til að skrá þessar bólusetningar í grunninn. Sputnik V er ekki viðurkennt á heimsvísu og er því ekki hægt að skrá bólusetningu með því efni.
2. Talsverð sóknarfæri eru í góðri hríslun upplýsinga um fjölmargt er varðar sóttkví B og C, ýmsar reglur sem gilda, sjálfsskráningu í landamærasóttkví, hvert á að snúa sér vegna útsetningar í starfi og svo mætti lengi telja. Farsóttanefnd biðlar til yfirmanna að upplýsa sitt starfsfólk vel með því að áframsenda tilkynningar farsóttanefndar og vísa á innri vefinn og Workplace. Hér er líka að finna yfirlit yfir helstu gildandi reglur. Allar ábendingar eru vel þegnar.
3. Minnt er á sýnatökustöð á Eiríksgötu 37 - allir starfsmenn með strikamerki mega mæta þangað alla virka daga kl. 9:00. Þar er mun minni bið en í Birkiborg.