Landspítali er á neyðarstigi
Í dag liggja 37 sjúklingar með COVID á Landspítala, þar af eru 25 í einangrun með virkt smit. Í gær bættust 6 í hópinn og 6 útskrifuðust. Á gjörgæslu eru 3, allir í öndunarvél, enginn í einangrun. Einn sjúklingur er á ECMO (hjarta- og lungnavél).
Í gær greindust 34 starfsmenn með COVID og er nú 221 starfsmaður í einangrun.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Sérstakar tilkynningar
1. Farsóttanefnd vinnur nú hörðum höndum að því að skoða nýjar reglur sem tóku gildi á miðnætti. Að svo komnu máli verður engu breytt varðandi sóttkví B1 og C hjá starfsmönnum en áskorun verður að ná utan um þá sem eru útsettir utan heimilis og ættu í raun að vinna í sóttkví B1 eins og aðrir útsettir.
2. Mælst er til að eftirfarandi einingar skoði vandlega möguleika til hólfaskiptingar:
a. Dag- og göngudeild 11B (þegar komið til framkvæmda)
b. Skilunardeild
c. Innrennslisgöngudeild gigtarsjúkdóma á Eiríksgötu 5
d. Lyfjablöndun
3. Reglur um skimanir sjúklinga verða óbreyttar enn um sinn en til skoðunar er að skima alla sem koma innkallaðir í aðgerðir og önnur inngrip. Það verður tilkynnt síðar hvernig sú útfærsla verður.
Það er ljóst að breyttar reglur um sóttkví í samfélaginu verða mikil áskorun og spítalanum er vandi á höndum að verja inniliggjandi sjúklinga fyrir smiti. Þá verður einnig áskorun að hafa yfirsýn yfir þá sem eru undanþegnir sóttkví en eru sannarlega útsettir í samfélaginu. Búast má við að næstu daga teiknist þessi mynd betur upp og mun farsóttanefnd ásamt rakningarteymi fylgjast náið með þróun mála og grípa til allra mörgulegra aðgerða til að minnka líkur á dreifingu smits innan spítalans.