Landspítali er á neyðarstigi
Í dag liggja 35 sjúklingar með COVID á Landspítala, þar af eru 27 í einangrun með virkt smit. Á gjörgæslu eru þrír, tveir þeirra í öndunarvél og annar þeirra í ECMO (hjarta- og lungnavél).
Í gær bættust 6 COVID smitaðir í hópinn og 4 voru útskrifaðir. Nú liggja alls 4 börn inni með eða vegna COVID.
208 starfsmenn eru í einangrun en í gær greindust 18 starfsmenn með COVID.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Sérstakar tilkynningar
1. Farsóttanefnd og rakningarteymi hafa gert meðfylgjandi flæðirit yfir þær aðgerðir sem grípa þarf til gagnvart útsettum starfsmönnum, nemum og verktökum. Stjórnendur eru beðnir að kynna sér það vel og gæta þess að starfsmönnum sé kunnugt um að aðrar reglur gilda á Landspítala en í samfélaginu. Ástæða þess er að Landspítala ber að vernda mikilvæga starfsemi sína með öllum tiltækum ráðum og það er beinlínis ætlast til að hann gangi lengra en gert er almennt í samfélaginu. Gæðaskjalið með flæðiritinu er aðgengilegt bæði á innri og ytri vef og það hefur einnig verið birt sérstaklega á vefnum og á Work Place á innra neti.
2. Búast má við mikilli fjölgun smita á næstunni og er mikilvægt að starfsfólk Landspítala geri allt sem í þess valdi stendur til að vernda inniliggjandi sjúklinga fyrir smiti.
3. Viðbúið er að fjölmargir þeirra sem til spítalans leita vegna annarra vandamála séu COVID smitaðir. Þetta mun valda auknu álagi á legudeildir, göngudeildir, bráðamóttökur og rannsóknardeildir. Ekki er búist við mörgum gjörgæsluinnlögnum vegna COVID en að sjálfsögðu geta þeir sem þurfa gjörgæslu vegna annarra vandamála einnig verið smitaðir.
4. Á vefslóðinni https://quarantine.landspitali.is/is er nú hægt að skrá sig í sóttkví C vegna komu yfir landamæri, vegna endurkomu til vinnu eftir COVID smit, vegna sóttkvíar á heimili og vegna vinnusóttkvíar B1. Vegna hins síðasttalda - sóttkvíar B1 - er vert að leggja áherslu á að sú ákvörðun að kalla útsettan starfsmann til vinnu verður að vera yfirmanns og eingöngu þegar vinnuframlag viðkomandi er talið nauðsynlegt til að tryggja rekstraröryggi og/eða öryggi sjúklinga. Starfsmaður eða yfirmaður geta fyllt út formin en netföng beggja skal alltaf skrá í þar til gerða reiti.
Við óskum ykkur öllum góðrar helgar, bæði þeim sem standa vaktina og hinum sem vonandi ná að hvíla sig!