Landspítali er á hættustigi
Í dag liggja 35 sjúklingar með COVID á Landspítala, þar af eru 34 í einangrun með virkt smit. Einn sjúklingur er á gjörgæslu í ECMO (hjarta- og lungnavél).
Í gær bættust 7 í hópinn og 2 útskrifuðust. Nú eru COVID sjúklingar á fjölmörgum deildum en þeim hefur fjölgað nokkuð hratt síðustu daga.
218 starfsmenn eru í einangrun og 132 í sóttkví.
Meltingar- og nýrnadeild er enn lokuð fyrir innlögnum en þar eru nú 5 sjúklingar með COVID. Í dag verður kappkostað að útskrifa fólk á farsóttarhótel eða önnur úrræði til að skapa rými fyrir væntar innlagnir/greiningar dagsins.
Sérstakar tilkynningar
1. Eins og tilkynnt var í gær eiga starfsmenn Landspítala sem losna úr einangrun eftir 5 daga að ljúka tveggja daga smitgát heima áður en þeir geta skráð sig í vinnusóttkví C og snúið aftur til starfa. Þetta er háð því að viðkomandi sé batnað og treysti sér til vinnu.
2. Starfsmenn sem eru útsettir í samfélaginu hafa verið mjög duglegir að láta farsóttanefnd vita af sér svo hægt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana. Fyrir það ber að þakka.
3. Starfsmenn sem eru útsettir heima hjá sér og eru í smitgát þess vegna eru í sóttkví frá spítalanum og fara þá í PCR ýmist á 6. eða 8. degi eftir því hversu lengi heimilismenn eru í einangrun. Ef þeir eru kallaðir í sóttkví B1 þá þurfa þeir að vera fullbólusettir, einkennalausir og skila neikvæðu PCR prófi áður en þeir koma inn í vinnusóttkví B1. Skila svo sýni á þriggja daga fresti þar til einangrun á heimili er lokið.
4. Fósturgreiningardeild hefur aflétt banni við því að maki eða aðstandandi megi fylgja konu í fósturgreiningu. Bannið gilti meðan Landspítali var á neyðarstigi.