Fundur fagráðs Landspítala og heilbrigðisráðherra
Fundartími: 09.02.2022 – 10:30
Fundarstaður: Teams
Fundargestir:
- Frá heilbrigðisráðuneyti: Willum Þór Þórsson, Sigurður Kári Árnason, Silja Gunnarsdóttir, Guðlaug Einarsdóttir, Unnur Ágústsdóttir og Milla Ósk Magnúsdóttir
- Frá fagráði Landspítala: Marta Jóns Hjördísardóttir, Jakobína Rut Daníelsdóttir, Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, Þórunn Jónsdóttir, Tryggvi Hjörtur Oddsson og Halldóra Eyjólfsdóttir. Erla Björg Birgisdóttir hafði boðað forföll.
Efni fundar:
Alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu og refsiábyrgð heilbrigðisstarfsmanna
Marta fer yfir þær fyrirspurnir sem hafa verið sendar á Dómsmálaráðuneyti og Heilbrigðisráðuneyti varðandi það hvort rétt væri að bæta ákvæði um cumulativa hlutlæga refsiábyrgð í almenn hegningarlög og þau svör sem hafa borist frá Dómsmálaráðuneyti.
Ráðherra og sérfræðingar ráðuneytisins fara yfir stöðuna á þessu máli. Rætt sérstaklega um skýrslu starfshóps um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu frá 2015 og mikilvægi þess að yfirfara þær tillögur sem þar eru. Sigurður Kári ræðir stuttlega um álitsgerð dómsmálaráðuneytis um þetta mál.
Ráðherra segir frá því að ráðuneytið muni nú taka upp boltann og fara í heild yfir þetta, skoða verklagið og viðbrögð við þessum atvikum, skoða hvernig kerfin geti verið samræmd. Fyrst þurfi að yfirfara hvaða tillögur úr skýrslunni hafi staðist tímans tönn á þeim sjö árum sem liðið hafa frá útgáfu hennar. Ráðuneytið mun í því samhengi kalla til hlutaðeigandi fulltrúa til að meta það.
Fyrir liggur samþykkt frá haustinu um að setja saman hóp til að skoða refsiábyrgð í hegningarlögum en hópurinn hefur ekki verið settur saman. Fagráð leggur áherslu á að þessi vinna verði sett af stað.
Stjórn Landspítala
Stutt umræða um fagráð Landspítala og það hvernig það hefur virkað á þeim stutta tíma sem það hefur verið starfandi. Ráðherra ræðir síðan um stjórn spítalans og leggur áherslu á að um verði að ræða faglega stjórn sem snýr að rekstri og faglegum störfum og að slík stjórn eigi að vera til stuðnings við alla starfsemi spítalans. Meginmarkmiðið eigi að vera að fólki líði vel og að aðbúnaður sé með þeim hætti að starfið gangi með þeim hætti.
Rætt um skipan stjórnar og sérstaklega skipun starfsfólks í stjórn spítalans. Ljóst að fagstéttir spítalans eru yfir 30 og erfitt verður að finna einstakling sem getur verið fulltrúi fyrir allar fagstéttir. Fagráð leggur áherslu á það við ráðherra að bæði geti verið gott að fulltrúar starfsfólks í stjórn spítalans komi úr fagráði en jafnframt að fagráð geti aðstoðað við tilnefningu starfsfólks í stjórnina.
Fleira var ekki rætt, fundi slitið klukkan 11:03