Landspítali er á hættustigi
Í dag er 41 sjúklingur með COVID á Landspítala. 39 eru með virkt smit í einangrun, tveir eru á gjörgæslu, annar í öndunarvél og einangrun.
Um helgina bættust alls 25 sjúklingar með COVID við hópinn en töluverðar útskriftir voru á móti. Nú eru COVID sjúklingar á fjölmörgum deildum utan hinna skilgreindu COVID deilda svo sem á Vífilsstöðum (10), móttökugeðdeild (5), meltingardeild (3), hjartadeild (1), hjarta- og lungnaskurðdeild (1), taugalækningadeild (1).
Nú eru 302 starfsmenn í einangrun og hafa aldrei verið fleiri. Ástandið á Landspítala þyngist því dag frá degi og má búast við að það versni talsvert áður en birtir til að nýju, sem vonandi verður innan fárra vikna.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Eftir að sóttkví í samfélaginu var afnumin og bið eftir niðurstöðum PCR prófa hefur lengst hefur farsóttanefnd ákveðið að leggja áherslu á eftirfarandi atriði gagnvart starfsmönnum, verktökum og nemendum:
1. Þeir sem eru með einkenni COVID sýkingar eiga að vera heima og fara í PCR próf. Ekki eru tekin gild heimapróf eða hraðgreiningapróf.
2. Þeir sem eru að koma yfir landamæri, eru einkennalausir, fullbólusettir og ekki útsettir af ferðafélögum en vantar niðurstöðu úr PCR prófi til að geta mætt til vinnu mega koma í sóttkví B2 (fínagnagríma, sérstök varúð á matmálstímum) sem gildir þar til sýninu hefur verið svarað neikvæðu. Þeir skrá sig í sóttkví C í vefformi og hún tekur gildi um leið og PCR prófi hefur verið svarað.
3. Þeir sem eru útsettir á heimili eða í samfélaginu eiga að vera í sóttkví frá spítalanum í 5 daga eða þar til einangrun á heimili er lokið. Sóttkví lýkur með neikvæðu PCR prófi á 5. degi (eða degi eftir að einangrun heimilismanns lýkur). Yfirmaður má kalla starfsmann inn í sóttkví B1 og skrá hann á vefformi. Þeir bera í sameiningu ábyrgð á að öllum reglum um sóttkví B1 sé fylgt.
4. Þeir sem eru útsettir af sjúklingum eða samstarfsmönnum í starfi á Landspítala og eru fullbólusettir mega vinna í sóttkví C sem lýkur með PCR prófi á 4. degi.
5. Sjúklingar sem eru útsettir af samsjúklingum fara í sóttkví í 5 daga, sjúklingar útsettir af starfsmönnum fara í einkennavöktun.
6. Sjúklingar sem leita til spítalans skulu skimaðir með spurningum um mögulega útsetningu, smit á heimili eða í nærumhverfi, bólusetningastöðu, nýlega komu yfir landamæri og einkenni sem geta samrýmst COVID. Þeir sem eru útsettir eða hafa einkenni skulu settir í sóttkví og tekið sýni. Áfram skal taka sýni af öllum sem leggjast inn brátt, sem og óbólusettum einstaklingum. Gæðaskjal um skimanir vegna flutninga sjúklinga og þeirra sem fara heim í leyfi í endurhæfingarskyni er áfram í gildi.
7. Allar starfseiningar eru beðnar um að huga vandlega að kaffi- og mataraðstöðu starfsfólks og gæta þess að fjöldi þar inni fari ekki yfir leyfilegan fjölda og að fyllstu varúðar sé gætt þegar grímur eru teknar niður til að neyta matar eða drykkjar.
8. Rakningarteymi mun nú einbeita sér að smitum sem koma upp hjá inniliggjandi sjúklingum en gefa almenn fyrirmæli vegna starfsmanna sem greinast smitaðir (sbr. lið 4).
9. Ný flæðirit sem varða ofangreint verður gefið út við fyrsta tækifæri sem og endurskoðuð gæðaskjöl.