Landspítali er á hættustigi
Í dag eru 47 sjúklingar á Landspítala með COVID, þar af eru 44 með virkt smit. Tveir eru á gjörgæslu, hvorugur í öndunarvél og annar í einangrun. Í gær bættust 9 í hópinn og 3 voru útskrifaðir.
313 starfsmenn eru í einangrun vegna COVID og er mönnun tvímælalaust stærsta áskorun spítalans um þessar mundir.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Sérstakar tilkynningar
1. Mikið álag er á skilgreindum COVID deildum og verður að undirstrika að sjúklingar sem greinast á öðrum deildum spítalans eiga að öllu jöfnu að vera þar áfram nema farsóttanefnd og innlagnateymið ákveði annað.
2. Fyrirkomulag við að fá útsetta starfsmenn til vinnu í sóttkví B1 og C hefur gefist vel. Engin smitdreifing hefur orðið vegna þessa svo vitað sé.
3. Nýtt fyrirkomulag við rakningar hefur verið tekið upp og verður kynnt stjórnendum með bréfi og leiðbeiningum þegar smit kemur upp hjá starfsmönnum viðkomandi eininga. Rakningarteymið rekur áfram í kringum sjúklinga sem greinast inniliggjandi, fer yfir öll mál sem koma upp og er ávallt til skrafs og ráðagerða um hvaða aðgerðum sé best að beita í einstökum tilvikum.
4. Á undanförnum vikum hefur sú umræða reglulega skotið upp kollinum hvort til þess geti mögulega komið að einkennalaust, smitað starfsfólk verði kallað til starfa. Fjölmiðlar spyrja talsvert út í þetta atriði og stundum er blandað saman hvort verið er að tala um útsett eða smitað starfsfólk. Þessi faraldur hefur sýnt að það er aldrei hægt að útiloka neitt og það blasir við að okkur ber að leita allra leiða til að halda uppi þjónustu við bráðveika og slasaða landsmenn. Hins vegar er sá gjörningur að kalla smitað starfsfólk til starfa síðasti valkosturinn í þeirri baráttu. Slíkt yrði ekki gert nema í nánu samráði við og með leyfi sóttvarnaryfirvalda, með samráði og samvinnu við öll viðkomandi stéttarfélög og síðast en ekki síst með fullu samþykki viðkomandi starfsmanna.
5. Flæðirit um sóttkví starfsmanna hefur verið endurskoðað og uppfært.
Vakin er athygli á því að bæði sóttkví C vegna útsetningar í starfi og sóttkví B1 vegna útsetningar á heimili eða í samfélaginu lýkur nú með sýnatöku á 4. degi.