Landspítali er á hættustigi
Í dag eru 39 sjúklingar með COVID á Landspítala. 37 eru með virkt smit í einangrun. Tveir eru á gjörgæslu, hvorugur í öndunarvél. Í gær bættust 5 nýir í COVID hópnum og 10 voru útskrifaðir úr honum. Vífilsstaðir eru áfram lokaðir nema fyrir COVID sjúklinga sem eru að ná sér eftir veikindin. Á B6 eru skimanir starfsmanna í dag og í kjölfarið verður endurmetið hvort óhætt er að opna fyrir innlagnir. Það er heimilt að útskrifa af deildinni en taka þarf PCR próf af sjúklingi sem er að flytjast á aðra deild eða stofnun og svarið þarf að liggja fyrir áður en flutningur á sér stað.
Nú eru 472 starfsmenn fjarverandi vegna einangrunar. Á næstu dögum munu mjög stórir hópar losna úr einangrun og nýtt verklag við einangrun starfsmanna sem tekur gildi í dag og er útskýrt hér að neðan mun vafalaust hjálpa talsvert til í þeim mikla mönnunarvanda sem hrjáir Landspítala.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Sérstakar tilkynningar
Reglur um einangrun og sóttkví eru í stöðugri þróun eins og faraldurinn. Stöðugur lærdómur og aukin þekking gerir okkur kleift að endurskoða stöðugt gildandi verklag.
Í því ljósi hefur farsóttanefnd ákveðið að reglur um einangrun og smitgát COVID smitaðra starfsmanna verði svohljóðandi:
Þribólusettur starfsmaður eða tvíbólusettur með staðfesta fyrri COVID sýkingu sem hefur lokið 5 daga heimaeinangrun má koma til starfa að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
1. Hann sé einkennalaus/einkennalítill
2. Hann hafi verið hitalaus í a.m.k. 24. klst.
3. Hann treysti sér til og vilji koma til vinnu
Starfsmaður notar fínagnagrímu við störf í þá tvo daga sem hann er í smitgát eftir að einangrun lýkur og skráir sig að því loknu í sóttkví C sem gildir í 7 daga. Í þessa tvo daga þarf hann að matast einn og gæta vandlega að fjarlægðarmörkum þegar gríma er tekin niður. Að sjálfsögðu fylgir hann öllum gildandi sóttvarnareglum á Landspítala ásamt grundvallarsmitgát.
Þessar reglur gilda einnig um nemendur og verktaka. Þær taka strax gildi.