Frá farsóttanefnd:
Landspítali var færður á neyðarstig kl. 14:00 í dag, 25. febrúar 2022.
Meginástæður þessa eru mikill fjöldi og aðflæði COVID smitaðra sjúklinga, fá legurými, miklar annir í COVID göngudeild, mikill fjöldi starfsmanna í einangrun og óheyrilegt álag á heilbrigðiskerfið í heild sinni. Þá er staðan á bráðamóttöku mjög erfið og fráflæði þaðan er mjög tregt.
Í dag er 51 sjúklingur á Landspítala með virkt COVID smit. Einn er á gjörgæslu með COVID en vegna annars.
Metfjöldi bættist í hópinn í gær eða 14 en einungis 5 voru útskrifaðir úr honum. Það er því þröngt setinn bekkurinn og í dag verður allt kapp lagt á að hreyfa COVID sjúklinga í önnur úrræði til að eiga rými fyrir bráðainnlagnir dagsins.
Í gær greindust yfir 80 starfsmenn með COVID og eru nú að lágmarki 369 frá vinnu vegna þess.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Sérstakar tilkynningar
1. Biðlað er til allra sem vettlingi geta valdið að skrá sig á bakvarðalista.
2. Rakningarteymi spítalans hefur hætt störfum í bili að minnsta kosti. Meðlimir teymisins hafa unnið gríðarlega mikið og þarft starf í gegnum faraldurinn en farsóttanefnd telur rétt að hætta smitrakningu í þeirri mynd sem hún hefur verið. Áfram skal bregðast við þegar starfsmaður greinist smitaður sem hefur verið við vinnu innan tilskilinna tímamarka frá upphafi einkenna og áfram þarf að bregðast við þegar inniliggjandi sjúklingur greinist á deild. Í dag verða gefin út tvö uppfærð og endurnýjuð gæðaskjöl um verklagið þegar þetta gerist og það verður einnig hlekkjað í þau í sjálfvirkri tilkynningu sem berst þegar póstur er sendur á rakning@landspitali.is. Farsóttanefnd verður áfram að störfum með vakt til kl. 21:00 á kvöldin og um helgar kl. 10:00-18:0 og mun hún svara öllum erindum og gefa ráð vegna smitrakninga ef þörf krefur.
3. Áfram gilda sömu reglur um útsetta starfsmenn, þeir verða að fylgja leiðbeiningum í flæðiriti um útsetta starfsmenn og fara í PCR próf og skrá sig í sóttkví B1 skv. leiðbeiningum.
4. Áfram gilda sömu reglur um smitaða starfsmenn. Þeir eiga að vera heima í a.m.k. 5 daga frá greiningu, hvort sem hún er gerð með PCR eða hraðgreiningaprófi.
5. Þeir sem hafa fengið COVID á síðustu 60 dögum eru undanþegnir sóttkví og sýnatökum.
6. Áfram gildir sama verklag fyrir komu yfir landamæri, PCR próf sem fyrst eftir komu, sóttkví B2 ef svar er ekki komið þegar vinna á að hefjast, sóttkví C og svo annað PCR á 4. degi.
7. Öll gæðaskjöl eiga að vera uppfærð eftir daginn í dag og er áfram vísað á COVID gæðahandbók sem er aðgengileg bæði á innra og ytra neti spítalans.
8. Hraðgreiningapróf verða notuð á skilgreindum einingum til að byrja með en ekki er ætlast til að sú notkun verði almenn á deildum fyrr en einhver leið hefur verið skilgreind til að skrá niðurstöður þeirra miðlægt.
Mikilvægt er að ítreka að enn er heimsóknarbann og algjör grímuskylda á Landspítala.
Helstu gildandi reglur á Landspítala á neyðarstigi frá 25. febrúar 2022