Landspítali er á neyðarstigi
Í dag eru liðin tvö ár frá því fyrsti COVID sjúklingurinn var lagður inn á Landspítala. Síðan þá hafa 934 sjúklingar legið á Landspítala með COVID, 116 hafa þurft gjörgæslu og 46 hafa látist.
Um 2.200 starfsmenn hafa smitast í yfirstandandi ómíkron faraldri frá 15. desember 2021 en áður hafði álíka stór hópur fengið önnur afbrigði veirunnar.
Nú eru 53 sjúklingar með COVID á Landspítala en 52 eru í einangrun. Tveir sjúklingar eru á gjörgæsludeild, báðir í einangrun og í öndunarvél. Tvö börn liggja á barnadeild en þess utan liggja COVID sjúklingar á fjölmörgum deildum.
Heldur færri starfsmenn eru í einangrun núna en undanfarið eða 271.
Þökk sé vægara afbrigði veirunnar og afburða góðri bólusetningarstöðu þjóðarinnar að COVID veikindi eru mun vægari en áður var. Eigi að síður er mikið álag á spítalann um þessar mundir vegna þess hve faraldurinn er útbreiddur í samfélaginu og ekki þola allir sýkinguna jafnvel. Þeir sem standa höllum fæti vegna undirliggjandi sjúkdóma, aldurs, hrumleika, færniskerðingar, fötlunar eða ófullnægjandi bólusetningastöðu geta hæglega orðið svo veikir að þeir þarfnist innlagnar á sjúkrahús. Mun minna er um veikindi sem þarfnast gjörgæsluvistunar og er það ánægjulegt. Landspítali stendur nú í miklum stormi en eins og allar febrúarlægðirnar sýndu svo vel þá mun hann væntanlega ganga yfir á næstu vikum. Þá ætti lífið að geta færst í eðlilegt horf á spítalanum og hægt að taka til við að vinna niður biðlista og leysa úr þeim fjölda verkefna sem hafa þurft að bíða vegna faraldursins.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Sérstakar tilkynningar
1. Heimapróf eru óáreiðanleg. Hraðgreiningapróf sem eru framkvæmd af viðurkenndum aðilum og skráð miðlægt eru tekin gild. Ef einstaklingur er með einkenni en neikvætt hraðgreiningapróf ætti hann að fara í PCR próf. Starfsmenn Landspítala geta pantað PCR próf í Heilsuveru og í sms staðfestingu á pöntun slíks prófs kemur fram hvar og hvenær sýnin eru tekin.
2. Létt hefur verið að takmörkunum í sóttkví C þannig að þeir sem sæta slíkri ráðstöfun mega nú sækja fundi og taka sér far með spítalaskutlunni. Sóttkví C er beitt vegna komu yfir landamæri (sýni við komu og á 4. degi), vegna útsetningar á deild (sýnataka á 4. degi) og eftir endurkomu til vinnu eftir COVID sýkingu (sýnalaus sóttkví). Fyrstu 2 dagarnir eru með fínagnagrímu (dagur 6 og 7) svo seinni 3 með skurðstofugrímu.
3. Nú þegar smitrakning er í höndum stjórnenda deilda er vert að minna á að einungis starfsmenn sem teljast útsettir vegna frávika í grímunotkun, grímulausra samskipta á matmálstímum þar sem ekki er unnt að halda fjarlægð eða aðrar ástæður liggja til grundvallar þurfa að fara í sóttkví C með sýnatöku á 4. degi. Ef öllum reglum hefur verið fylgt er slík ráðstöfun óþarfi. Sjálfsagt er að leita ráðgjafar farsóttanefndar ef vafi er uppi um viðeigandi ráðstafanir.
4. Farsóttanefnd fundar daglega og oftar ef þörf krefur. Allt regluverk er í stöðugri endurskoðun, fjöldi gæðaskjala hefur verið endurskoðaður um helgina og allar takmarkanir eru til skoðunar. Áfram er meginmarkmið að vernda inniliggjandi sjúklinga og koma í veg fyrir stórar hópsýkingar hjá starfsmönnum svo ekki verði þjónustubrestur á einstökum einingum. Farsóttanefnd hefur nefnt þessa nálgun skipulagt undanhald og mun áhrifa þess gæta á næstu dögum og vikum.