Kæra samstarfsfólk!
Það er með stolti en jafnframt af auðmýkt sem ég hef störf sem forstjóri Landspítala í dag. Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt til að leiða þennan stærsta vinnustað landsins, þar sem unnið er þrekvirki í þágu sjúkra og slasaðra á hverjum einasta degi. Í alþjóðlegum samanburði stendur spítalinn sig vel og árangur okkar á ýmsum sviðum hefur vakið eftirtekt, ekki síst í ljósi smæðar íslensku þjóðarinnar. Þessi árangur er ykkur starfsfólkinu að þakka en spítalinn er einstaklega auðugur af vel menntuðu og öflugu fólki.
Undanfarin misseri hefur reynt mjög á þennan hóp í viðureigninni við krónuveirufaraldurinn. Það get ég sannarlega vitnað um. Frábær árangur okkar Íslendinga í þeirri orrahríð hefur vakið athygli og aðdáun víða og eigið þið, starfsfólk Landspítala, þar stóran þátt. Dugnaðurinn og eljusemin verður ykkur seint fullþökkuð.
Þrátt fyrir að farsóttin verði vonandi fljótlega að baki eru áskoranir fram undan. Ég hef sérstakar áhyggjur af viðvarandi skorti á starfsfólki og legurýmum. Þessi skortur skapar óviðunandi vinnuumhverfi og óhóflegt álag á starfsfólk. Þennan vítahring verðum við að rjúfa.
Því munu megináherslur okkar næstu mánuði snúa að því annars vegar að tryggja fullnægjandi mönnun starfseininga og hins vegar að vinna markvisst að því að verkefni okkar á spítalanum séu alla jafna við hæfi. Til að svo megi verða þarf að horfa sérstaklega til sérhæfðrar þjónustu spítalans, þjónustu sem ekki verður veitt annars staðar, sem og hlutverks hans sem háskólasjúkrahúss. Á sama tíma er nauðsynlegt að skilgreina betur en áður hvaða verkefni eiga heima hjá okkur á Landspítala og hvaða verkefnum aðrar starfseiningar heilbrigðisþjónustunnar ættu fremur að sinna.
Í þeirri vinnu sem fram undan er tel ég mikilvægt að við byggjum á styrkleikum okkar þótt samtímis þurfi að berja í helstu bresti. Þetta verður yfirgripsmikið og krefjandi verkefni sem við þurfum öll að vinna saman. Raddir ykkar, starfsfólksins, eru sem aldrei fyrr mikilvægar í þessari vegferð og ég mun sérstaklega leggja mig fram um að hlusta eftir þeim.
Runólfur Pálsson
Það er með stolti en jafnframt af auðmýkt sem ég hef störf sem forstjóri Landspítala í dag. Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt til að leiða þennan stærsta vinnustað landsins, þar sem unnið er þrekvirki í þágu sjúkra og slasaðra á hverjum einasta degi. Í alþjóðlegum samanburði stendur spítalinn sig vel og árangur okkar á ýmsum sviðum hefur vakið eftirtekt, ekki síst í ljósi smæðar íslensku þjóðarinnar. Þessi árangur er ykkur starfsfólkinu að þakka en spítalinn er einstaklega auðugur af vel menntuðu og öflugu fólki.
Undanfarin misseri hefur reynt mjög á þennan hóp í viðureigninni við krónuveirufaraldurinn. Það get ég sannarlega vitnað um. Frábær árangur okkar Íslendinga í þeirri orrahríð hefur vakið athygli og aðdáun víða og eigið þið, starfsfólk Landspítala, þar stóran þátt. Dugnaðurinn og eljusemin verður ykkur seint fullþökkuð.
Þrátt fyrir að farsóttin verði vonandi fljótlega að baki eru áskoranir fram undan. Ég hef sérstakar áhyggjur af viðvarandi skorti á starfsfólki og legurýmum. Þessi skortur skapar óviðunandi vinnuumhverfi og óhóflegt álag á starfsfólk. Þennan vítahring verðum við að rjúfa.
Því munu megináherslur okkar næstu mánuði snúa að því annars vegar að tryggja fullnægjandi mönnun starfseininga og hins vegar að vinna markvisst að því að verkefni okkar á spítalanum séu alla jafna við hæfi. Til að svo megi verða þarf að horfa sérstaklega til sérhæfðrar þjónustu spítalans, þjónustu sem ekki verður veitt annars staðar, sem og hlutverks hans sem háskólasjúkrahúss. Á sama tíma er nauðsynlegt að skilgreina betur en áður hvaða verkefni eiga heima hjá okkur á Landspítala og hvaða verkefnum aðrar starfseiningar heilbrigðisþjónustunnar ættu fremur að sinna.
Í þeirri vinnu sem fram undan er tel ég mikilvægt að við byggjum á styrkleikum okkar þótt samtímis þurfi að berja í helstu bresti. Þetta verður yfirgripsmikið og krefjandi verkefni sem við þurfum öll að vinna saman. Raddir ykkar, starfsfólksins, eru sem aldrei fyrr mikilvægar í þessari vegferð og ég mun sérstaklega leggja mig fram um að hlusta eftir þeim.
Runólfur Pálsson