Landspítali er á neyðarstigi
Í dag,1. mars 2022,eru ýmis tímamót.
Runólfur Pálsson hefur tekið við starfi forstjóra Landspítala af Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur framkvæmdastjóra meðferðasviðs sem hefur verið starfandi forstjóri frá haustmánuðum.
Agnar Bjarnason settur yfirlæknir smitsjúkdóma hefur tekið við formennsku í farsóttanefnd Landspítala af Má Kristjánssyni sem snýr sér nú alfarið að því að gegna starfi forstöðumanns lyflækninga- og bráðaþjónustu spítalans.
Farsóttanefnd vill þakka Guðlaugu Rakel fyrir frábæra stjórnun og leiðsögn á þessum erfiða vetri og fagnar endurkomu hennar í farsóttanefnd sem fulltrúa framkvæmdastjórnar. Þá þakkar nefndin Má af alhug fyrir gott og farsælt samstarf og óskar honum velfarnaðar í nýjum viðfangsefnum. Agnar hefur þegar verið boðaður á fund nefndarinnar í dag og verður boðinn velkominn þar.
Þá er rétt að nefna að Dagný Halla Tómasdóttir skrifstofustjóri hefur í dag ritað sína þrjúhundruðustu fundargerð farsóttanefndar og viðbragðsstjórnar en þessar fundargerðir eru ómetanlegar, bæði sem vinnugögn og heimild um vegferð sjúkrahúss í gegnum heimsfaraldur. Þess má geta að landlæknir fær afrit af þessum fundargerðum og les þær allar.
Í dag liggja 55 sjúklingar með COVID á Landspítala, 54 eru í einangrun. 3 eru á gjörgæslu, allir í öndunarvél og einangrun. Áfram er mikið um greiningar á bráðamóttöku og hjá innlögðum sjúklingum og eru COVID sjúklingar nú á fjölmörgum deildum eins og verið hefur undanfarið. 10 bættust í hópinn í gær og 8 fóru úr honum.
Starfsmenn í einangrun eru að lágmarki 253.
Farsóttanefnd mun í dag skoða möguleika á notkun hraðgreiningarprófa ásamt því að vinna að áætlun um afléttingu takmarkana og sóttvarna á spítalanum. Ekki er búist við að neitt stórt gerist í þeim efnum á meðan faraldurinn geisar sem aldrei fyrr en mikilvægt að horfa fram í tímann og draga upp útlínur að áætlun.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.