Landspítali er á neyðarstigi
Nú eru á Landspítala 77 einstaklingar með COVID, þar af eru 74 með virkt smit og í einangrun. Á gjörgæslu eru fjóri og einn í öndunarvél.
Aðflæði COVID sjúklinga er áfram mikið og er áskorun á hverjum degi að koma þeim fyrir. Hluti hópsins greinist í innlögn vegna einkenna og er þá þegar með rými en öllum bráðakomum þarf að finna einangrunarrými.
Í gær bættust 16 í hópinn og 8 fóru úr honum, þar af var eitt andlát. Nú eru hópsýkingar víða á deildum og COVID sjúklingar eru á 18 deildum Landspítala.
Allra leiða er leitað til að útbúa legurými og útskrifa þá sem mögulega geta farið heim eða annað.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Sérstakar tilkynningar
- Ýmsar breytingar á reglum og leiðbeiningum eru ýmist komnar til framkvæmda eða verða gefnar út í dag s.s. um einangrun inniliggjandi, að ekki þarf lengur að skima þá sem fara heim í þjónustu heimahjúkrunar og um komur á dag- og göngudeildir.
Þá er vísað í tilkynningu gærdagsins og uppfærðar gildandi reglur á vefnum um aðrar breytingar. - Farsóttanefnd hvetur starfsfólk til að fara í PCR próf vegna einkenna sem fyrst og ekki eyða tíma og peningum í að taka heimapróf. Þau eru ekki áreiðanleg. Hraðgreiningarpróf hjá viðurkenndum aðilum eru gild en PCR prófin eru best.
- Starfsfólk Landspítala hefur sýnt fádæma elju, dugnað og fagmennsku í gegnum allan faraldurinn en vert er að þakka sérstaklega fyrir liðsheildina og lausnamiðaða hugsun í þeirri stóru áskorun sem við stöndum frammi fyrir þessa dagana við að sinna venjubundnum verkefnum ásamt tæplega 80 COVID sjúklingum. Svona verkefni verða ekki leyst nema með framlagi allra.