Hildur Helgadóttir hefur tekið við formennsku í farsóttanefnd Landspítala en hún hefur um alllangt skeið verið verkefnisstjóri nefndarinnar.
Hildur tekur við formennsku í farsóttanefnd af Má Kristjánssyni sem nú er forstöðumaður lyflækninga- og bráðaþjónustu spítalans. Már er þó áfram í nefndinni enda mikils metinn sérfræðingur á sviði smitsjúkdóma og farsótta. Hildur Helgadóttir hefur verið verkefnastjóri farsóttanefndar frá árinu 2018 og var það einnig á árunum 2009-2012. Hún hefur verið í fullu starfi fyrir farsóttanefnd frá því í mars 2020.
Verkefni farsóttanefndar eru mörg og fjölbreytt en lúta í raun öll að undirbúningi og framkvæmd þegar farsótt sem ógnar heilsu almennings gengur yfir landið. Þegar spítalinn er á hættustigi vinna farsóttanefnd og viðbragðsstjórn spítalans í sameiningu að því að stýra viðbragði spítalans og á daglegum fundum eru teknar fjölmargar ákvarðanir er varða starfsemi spítalans á farsóttatímum. Eitt af mikilvægustu hlutverkum farsóttanefndar er að vera starfsfólki spítalans til leiðsagnar og aðstoða í gegnum allar þær áskoranir sem heimsfaraldur hefur í för með sér. Grínast hefur verið með það að Hildur eigi núna Íslandsmet í svörun tölvupósta innanhúss án atrennu!
Hildur er hjúkrunarfræðingur að mennt, hún lauk meistaraprófi frá háskólanum í Calgary 1989 og meistaraprófi í verkefnastjórnun frá verkfræðideild HÍ 2007. Hún hefur sinnt margvíslegum störfum á Landspítala og víðar auk trúnaðarstarfa á vettvangi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um árabil.
Fréttir frá farsóttanefnd og viðbragsstjórn á ytri vef Landspítala.
Meðfylgjandi er viðtal við Hildi Helgadóttur í tilefni að því að hún tók við formennsku í farsóttanefnd Landspítala.