Landspítali er á neyðarstigi
Í dag eru 85 sjúklingar með Covid á Landspítala, 78 í einangrun, þar af eru 9 börn ýmist með eða vegna Covid. Hjá þeim eins og fullorðna fólkinu er oft erfitt að greina á milli hvað er hvað en ljóst er að Covid getur valdið versnun á undirliggjandi heilsuvanda og þannig leitt til sjúkrahúsinnlagnar. Auk þess eru nokkur börn með augljós Covid veikindi.
Á gjörgæslu eru 4 sjúklingar, 1 í öndunarvél. Í gær bættust 23 sjúklingar í hópinn og 8 voru útskrifaðir úr honum.
Sem fyrr er mannekla mikil áskorun og er nú allt kapp lagt á að manna komandi helgi.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Sérstakar tilkynningar:
1. Í gær var sett í rekstur ný útgáfa af vefformum fyrir starfsfólk til að skrá sig í viðeigandi sóttkví. Sjá https://quarantine.landspitali.is/is
2. Farsóttanefnd hefur unnið leiðbeiningar um hvernig standa skuli að því að heimila smituðum, einkennalausum starfsmanni að sækja vinnu. Gæðaskjal um það verður gefið út í dag. Farsóttanefnd þarf að vera upplýst þegar þetta ferli fer af stað og er til ráðgjafar, en ákvörðun um þessa ráðstöfun liggur hjá næsta yfirmanni.
3. Enn er í gildi heimsóknarbann á Landspítala nema með sérstökum undanþágum. Þetta er gert til að vernda sjúklinga og starfsmenn og eru aðstandendur vinsamlega beðnir um að sýna því skilning að faraldrinum er langt í frá lokið á Landspítala og ekki skynsamlegt að opna þar dyr upp á gátt.
Góða helgi allir sem einn!