Landspítali er á neyðarstigi
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Í framhaldi af breytingum á reglum í gær er mikilvægt að árétta eftirfarandi:
1. Sóttkví C vegna landamæra hefur verið aflögð og þar með sýnatökur einnig, bæði við komu og á 4. degi. Þeir sem þegar eru skráðir í sóttkví C þurfa ekki að fara í seinna sýni nema þeir hafi einkenni.
2. Sóttkví inniliggjandi sjúklinga er óbreytt. Þeir sem eru útsettir t.d. af stofufélaga eiga að vera í sóttkví og skila sýni á 4. degi. Ef sóttkví verður ekki við komið vegna aðstæðna þá má beita stífri einkennavöktun. Það hefur sýnt sig að mörg hafa smitast af stofufélögum nú í ómíkron-bylgjunni og því er rétt að beita sóttkví áfram við þessar aðstæður.
3. Starfsmenn sem eiga eftir að fá örvunarbólusetningu geta leitað á hvaða heilsugæslustöð sem er. Ef bólusetningatími á stöð viðkomandi hentar ekki má skrá sig á annarri stöð en það er ekki hægt að gera í Heilsuveru. Það þarf að hringja og bóka sig í bólusetningu.
Lovísa Agnes Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur sem kom til liðs við flæðisdeildina fyrir tveimur vikum til að aðstoða við COVID flæðið snýr nú aftur til sinna starfa hjá Embætti landlæknis. Farsóttanefnd og viðbragðsstjórn vilja þakka Lovísu sérstaklega fyrir ómetanlega aðstoð á erfiðum tímum og óska henni velfarnaðar í sínum störfum hjá Embætti landlæknis.
Góða helgi allir!