Landspítali er á hættustigi frá og með hádegi í dag 28. mars 2022
Á Landspítala eru 60 einstaklingar með Covid. Af þeim er 51 með virkt smit en 9 hafa lokið einangrun á Covid deildum og bíða flutnings. Tveir eru á gjörgæslu, báðir í öndunarvél. Nú eru 2 börn inniliggjandi með Covid.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Um helgina var ágætt jafnvægi í inn og útskriftum úr Covid hópnum en nokkuð greindist af inniliggjandi sjúklingum á nokkrum deildum.
Áréttað er að ekki er þörf á að skima sjúklinga fyrir flutning á aðrar stofnanir en hjúkrunarheimili.
Þegar upp kemur smit á deild hjá inniliggjandi sjúklingi er mikilvægt að fylgja í hvívetna verklagi sem lýst er í gæðaskjali en skima ekki alla sjúklinga á deildinni og alls ekki alla starfsmenn nema að höfðu samráði við farsóttanefnd. Einungis örfáir sjúklingar sem hafa greinst við skimun hafa orðið veikir og þurft sérhæfða meðferð. Það er því óþarfi að leita að einkennalausum smituðum en að sama skapi mjög mikilvægt að taka einkennasýni þegar svo ber undir og hafa þá fleiri veirur sem valda öndunarfærasýkingum í huga.