Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og fylgdarlið gaf sér góðan tíma í heimsókn sinni á Landspítala 5. maí 2022 og fór víða um.
Á Landspítala Hringbraut var Barnaspítali Hringsins heimsóttur sem og rannsóknarkjarninn. Á Landspítala Fossvogi var dagdeild skurðlækninga A5 heimsótt, gjörgæsludeild, bráðadagadeild lyflækninga og bráðamóttakan. Að lokum kynnti ráðherra sér starfsemi hermiseturs í Skaftahlíð og átti fund með framkvæmdastjórn spítalans.
Runólfur Pálsson forstjóri sagði af þessu tilefni að það hefði verið sérstaklega ánægjulegt að taka á móti heilbrigðisráðherra og kynna hluta hins þróttmikla starfs sem fram fer á Landspítala: „þetta var mikil yfirreið og við náðum að heimsækja einingar á öllum klínísku sviðunum okkar. Ég tel að þarna hafi ráðherra og fylgdarlið fengið góða innsýn í flókna starfsemi spítalans og áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Við erum þegar farin að skipuleggja næstu heimsókn ráðherra enda augljóst að fyrir því er mikill áhugi“