Í dag 12. maí er víða um heim haldið upp á alþjóðadag hjúkrunarfræðinga en þessi dagur var valinn þar sem hann er fæðingardagur Florence Nightingale (1820-1910) sem lagði grunninn að nútíma hjúkrun.
Á Landspítala hefur vikan í kringum 12. maí gjarnan verið notuð til að vekja athygli á mikilvægi hjúkrunar. Þetta árið var ákveðið að gera þrjú myndbönd um fagfólk í hjúkrun sem er tiltölulega nýtt í sínu fagi og svo hjúkrunarfræðinga sem koma frá öðrum löndum. Myndböndin gefa innsýn í þann fjölbreytta og hæfileikaríka hóp sem starfar við hjúkrun á Landspítala.
Á Landspítala starfa nú um 250 hjúkrunarfræðingar með erlent ríkisfang og í þessu myndskeiði segja frá Wendli Galan Viejo sem starfar á gjörgæslunni við Hringbraut og Jessicu Lohane Sales Soares sem starfar á lungnadeild A6 í Fossvogi.
Sjúkraliðar gegna fjölbreyttum og mikilvægum störfum við hjúkrun á Landspítala. Í þessu myndskeiði eru viðtöl við þrjá nýútskrifaða sjúkraliða, þau Orra Ibsen Ólafsson sem starfar á krabbameinsdeild 11EG, Báru Ósk Einarsdóttur sem starfar á BUGL og Ólöfu Jónsdóttur sem starfar á meltingar- og nýrnadeild 12E.
Síðast en ekki síst eru viðtöl við tvo unga og áhugasama hjúkrunarfræðinga:
- Atli Dagur Sigurðsson starfar á bráðamóttöku Landspítala Fossvogi
- Helga Guðrún Jónmundsdóttur starfar á meltingar- og nýrnadeild 12E
Þau útskrifuðust úr hjúkrun árið 2021 og hafa undanfarið verið á sérstöku starfsþróunarári á Landspítala.
Hjúkrun er einn af hornsteinum heilbrigðiskerfisins. Í flóknu spítalaumhverfi er mikil þörf á færum og vel menntuðum hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Myndskeiðin gefa innsýn í þann mikla mannauð sem starfar á Landspítala.
Framkvæmdastjórn og forstjóri Landspítala óska hjúkrunarfræðingum og öðrum sem starfa við hjúkrun til hamingju með 12. maí.